Umferðarlög

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 17:36:32 (7168)

2002-04-08 17:36:32# 127. lþ. 114.27 fundur 652. mál: #A umferðarlög# (Umferðarstofa o.fl.) frv. 83/2002, ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[17:36]

Ásta Möller:

Herra forseti. Mig langar að hafa örfá orð um það frv. til laga sem hér er til umfjöllunar, um breytingu á umferðarlögum. Í 1. gr. frv. er lagt til að bráðabirgðaskírteini verði gefið út eftir eitt ár að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Ég verð að segja að á síðustu árum hafa verið gerðar ýmsar breytingar á umferðarlögum sem hafa verið til bóta varðandi þá unglinga sem eru að fá ökuskírteini. Ég get nefnt þar nokkur dæmi, m.a. punktakerfið sem hefur reynst mjög vel sem ákveðin gulrót, ákveðinn hvatning til unglinga að gera betur.

Í máli hv. þingmanna hefur komið fram að eftir að æfingaaksturinn var tekinn upp hafi hann skilað sínu. Nefndar voru tölur sem var kannski ekki farið nákvæmt í en sem þó var hægt að lesa út ákveðna tilhneigingu um að eftir að æfingaakstur var tekinn upp hafi slysum fækkað hjá ungmennum og það er rétt. Meira að segja er mjög einfalt að sjá það út að veruleg breyting hefur verið á milli ára eftir því hvort árgangurinn hefur fengið æfingaakstur eða ekki. Í þessu tilfelli skiptir verulegu máli að krakkarnir fái þjálfun, fyrst og fremst þjálfun og leiðbeiningu og þeir fái það sem kalla má raunveruleikaþjálfun. Slíkar ráðstafanir hafa því leitt til þess að umferðaröryggið er betra og slysum hefur í einhverju fækkað hjá þessum ungmennum.

Einnig hafa verið töluverðar breytingar í Ökuskólanum. Fræðslan hefur verið bætt og við vitum líka að tryggingafélög hafa tekið upp hjá sjálfum sér að kalla þá unglinga sem lent hafa í tjónum inn á námskeið á vegum tryggingafélaganna. Ég hef séð tölur um að einmitt þeir krakkar hafa bætt sig verulega eftir slíka þjálfun. Sú breyting sem hér er lögð til á umferðarlögum er enn eitt lóð á vogarskálarnar til að auka öryggi ungmenna í umferðinni þegar þau eru að taka fyrstu skrefin í akstri.

Síðan langar mig að fjalla aðeins um Umferðarráð sem aðrir hv. þm. hafa jafnframt tekið til. Ég hef ákveðnar efasemdir um þetta nýja umferðarráð sem fær með frv. nýtt hlutverk, annað hlutverk. Gert er ráð fyrir að hið nýja umferðarráð sé ráðgefandi en hafi jafnframt ákveðinn framkvæmdastjóra sem mér finnst vera ákveðið stílbrot. Ég get séð að hægt væri að leysa þetta með sama hætti og gert hefur verið við margar ríkisstofnanir upp á síðkastið, að setja fagráð sem eru til ráðgjafar viðkomandi stofnun. Ekki stjórn heldur fagráð sem er þá skipað aðilum sem hafa sérþekkingu á viðkomandi máli. Það truflar mig sem sé dálítið að tvöföldun skuli vera á þessu kerfi, annars vegar Umferðarstofnun sem tekur við verkefnum núverandi Umferðarráðs en samt stendur eftir umferðarráð sem er með annað hlutverk sem við áttum okkur ekki á hvernig mun þróast. Ég hvet allshn. til að taka þetta til sérstakrar skoðunar.

Þriðja málið sem ég vil líka aðeins nefna er varðandi Skráningarstofuna og niðurlagningu hennar. Það truflar mitt einkavæðingarhjarta að verið sé að færa stofnun sem hefur verið hlutafélagavædd aftur inn í ríkiskerfið. Ég tel að við þurfum að skoða þetta með það í huga hvort hægt er að finna leiðir og gera þetta einhvern veginn öðruvísi eða jafnvel skoða það hvort Umferðarstofnun eigi að hlutafélagavæðast ein og sér.

Ég vildi aðeins með örfáum orðum koma þessum hugleiðingum mínum fram við 1. umr. og síðan mun ég þá leggja hugleiðingar mínar fram í allshn. þar sem ég á sæti.