Umferðarlög

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 17:52:18 (7173)

2002-04-08 17:52:18# 127. lþ. 114.27 fundur 652. mál: #A umferðarlög# (Umferðarstofa o.fl.) frv. 83/2002, KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[17:52]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir þetta svar. Margt ágætt kemur nú fram í þáltill. um stefnumótun um aukið umferðaröryggi, t.d. það að velja hv. þm. í nefnd um umferðaröryggismál og tryggja þar með sennilega meiri áhuga hinna póliltísku flokka sem eiga fulltrúa á Alþingi á umferðaröryggismálum.

Hæstv. ráðherra vitnaði í greinargerð með þáltill. um að nefndin ætti að skila Alþingi skýrslu í byrjun hvers árs þar sem hún gerir grein fyrir hvernig til hafi tekist. Auðvitað er það mjög gott. En í gildandi umferðaröryggisáætlun sem fyrrv. hæstv. dómsmrh. flutti var líka gert ráð fyrir því að dómsmrh. flytti Alþingi skýrslu í upphafi eða fyrir síðasta ár í raun og gerði grein fyrir henni. Þegar hæstv. dómsmrh. fylgdi þessari tillögu úr hlaði --- ég var einmitt að fá þá ræðu prentaða --- spurði ég út í skýrsluna, þ.e. um hvernig til hefði tekist undanfarin ár. Ég get ekki annað séð, herra forseti, en að dómsmrh. hafi flutt skýrslu á fyrsta þingi þessa kjörtímabils en síðan ekki söguna meir. Ég gat hvorki séð í fundargögnum né þinggögnum annað en að svo hafi verið. Því vil ég spyrja hæstv. dómsmrh. í þessu stutta andsvari hverju sæti að skýrsla um framkvæmd umferðaröryggisáætlunar fyrir undanfarin tvö ár hafi ekki verið flutt þinginu. Þessi fyrsta skýrsla, sem ég vitnaði til og hef hér, var flutt þinginu eða lögð fram í þinginu fimmtudaginn 11. maí árið 2000 að mig minnir. Þingi lauk 13. maí. Ég man ekki hvað klukkan var, en því lauk sem sagt þarna. Alþingi fékk bara skýrsluna en málið var ekkert rætt. Það er þetta sem auðvitað er að, þ.e. að umferðaröryggismál eru ekki rædd á hinu háa Alþingi.