Umferðarlög

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 17:54:29 (7174)

2002-04-08 17:54:29# 127. lþ. 114.27 fundur 652. mál: #A umferðarlög# (Umferðarstofa o.fl.) frv. 83/2002, dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[17:54]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Það er alþekkt að þó skýrslur séu lagðar fram þá eru þær ekki alltaf ræddar, sérstaklega á hinu háa Alþingi. Í sambandi við þessa síðustu umferðaröryggisáætlun þá er það rétt hjá hv. þm. að komu hennar á þingið hefur seinkað nokkuð. Raunar er nokkuð langt síðan hún kom inn á þingið. Hún hefur hins vegar ekki komist á dagskrá. Við vorum einmitt að ræða þessi mál fyrir páska. Ýmsar skýringar eru á þessu, m.a. sú að mannaskipti urðu í starfshópnum sem samdi þessa áætlun þannig að þar komu upp ákveðin vandkvæði.

Hins vegar voru drög að þessari áætlun rædd mjög vandlega á sérstöku umferðarþingi sem haldið var í sumar. Þar komu fram margar áherslur sem einnig koma fram í þessari áætlun. Þær voru ræddar á þessu þingi sem mjög margir sóttu.

Ég ítreka að búið er að vinna mjög mikið í þessum málum. Ég skil eiginlega ekki hvers vegna hv. þm. er að reyna að gera stöðu umferðaröryggismála hér á landi tortryggilega. Það er búið að gera mjög mikið á þeim þremur árum sem liðin eru af þessu kjörtímabili. Það er ekki nóg að vera alltaf með einhver orð á blaði heldur þarf að framkvæma hlutina. Ég hygg að hv. þm. sjái það mætavel ef hann skoðar afskipti lögreglunnar af málum og sér hvaða árangri hún hefur náð, alla samstarfssamningana sem lögreglan hefur gert milli umdæma, m.a. við Vegagerðina og fleiri aðila, allan þann áróður sem hafður hefur verið í frammi og lagabreytingar sem hér hafa komið fram eða eru væntanlegar. Ég bið hv. þm. um að kynna sér þetta betur.