Umferðarlög

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 17:56:31 (7175)

2002-04-08 17:56:31# 127. lþ. 114.27 fundur 652. mál: #A umferðarlög# (Umferðarstofa o.fl.) frv. 83/2002, KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[17:56]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Ég ítreka það sem ég sagði áðan að fjármunir hafa ekki fylgt með umferðaröryggisáætlun á hinu háa Alþingi í fjölda ára og það á ekkert frekar við um þetta kjörtímabil en önnur. Ég skal koma að því síðar í dag eða kvöld og rökstyðja mál mitt þá þegar ég hef betri tíma.

Grundvallaratriðið er að peningar hafa ekki fylgt með. Við getum farið yfir það á eftir því ég hygg að að hæstv. dómsmrh. sé sammála mér um það miðað við það sem haft hefur verið eftir henni í blöðum eftir umrætt umferðarlagaþing. Þar var sérstaklega ályktað að umferðaröryggisáætlun væri nánast einskis nýtt plagg ef ekki fylgdi með framkvæmda- og peningaáætlun til þess að hrinda hlutum í framkvæmd.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan við eigum að bera saman umferðaröryggisáætlun 2002--2012 sem er mjög gott plagg --- þar er fullt af góðum tillögum --- og svo umferðaröryggisáætlun Reykjavíkurborgar fyrir síðastliðin ár. Á þeim er mikill munur. Þar er framkvæmdaáætlun um hvað skuli gera á hverju ári og hvaða fjármunum verði varið í það. Þetta var gert og þetta stóðst. Það væri dálítið meiri myndarbragur á umferðaröryggisáætlun sem við ræðum á Alþingi ef þetta fylgdi með núna. Í athugasemdum við frv. sem við ræðum hér og er um að sameina þessar tvær stofnanir, kemur fram að verið sé að spara peninga, nýta betur húsnæði og starfsmenn o.s.frv. Allt er þetta gott og blessað vafalaust. Svo er vafalaust. En til umferðaröryggismála veitum við smáaurum í dag á Íslandi.