Umferðarlög

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 17:58:23 (7176)

2002-04-08 17:58:23# 127. lþ. 114.27 fundur 652. mál: #A umferðarlög# (Umferðarstofa o.fl.) frv. 83/2002, ÞKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[17:58]

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég verð satt að segja að viðurkenna að mér finnst gæta orðhengilsháttar hjá hv. þm. Kristjáni Möller. Hann kemur upp og er með ýmsar efasemdir og vafasamar athugasemdir um þær umferðaröryggisáætlanir sem settar hafa verið fram. Ég vil taka það strax fram að allir hafa metnað og mikið hefur verið gert, bæði af hálfu ríkisstjórnarinnar og þeirra sem standa bæði að stjórn og stjórnarmeirihlutanum á þingi.

Ég vil benda á að m.a. á grundvelli þessarar stefnu hefur slysum fækkað, alvarlegum slysum á undanförnum árum þannig að eitthvað hefur verið gert.

Hv. þingmanni er umferðaröryggisáætlun Reykjavíkurborgar ofarlega í huga. Það besta sem hefði verið hægt að gera fyrir umferðaröryggismál í Reykjavíkurborg væri ef R-listinn hefði lufsast til þess setja fram stefnumótun fyrir fjölförnustu gatnamót landsins, þ.e. gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar. Nei. Í stað þess voru þessi fjölförnu hættulegu gatnamót látin dankast í kerfinu og menn skýldu sér sér á bak við hinar og þessar athugasemdir. Það hefði verið það besta sem Reykjavíkurborg undir forustu R-listans hefði getað gert í umferðaröryggismálum.

Herra forseti. Ég vil einnig geta þess að við ræðum frv. til laga um breyting á umferðarlögum. Þar er þess m.a. getið hvað eigi að gera varðandi bráðabirgðaskírteini. En hv. þm. Kristján Möller kemur hingað upp og minnist ekki einu orði á þetta ákvæði sem að mínu mati getur stuðlað að enn betra og meira umferðaröryggi á götum landsins. Þess vegna langar mig til þess að vita viðhorf hans til 1. gr. frv. sem við nú ræðum.