Umferðarlög

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 18:02:40 (7178)

2002-04-08 18:02:40# 127. lþ. 114.27 fundur 652. mál: #A umferðarlög# (Umferðarstofa o.fl.) frv. 83/2002, ÞKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[18:02]

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Þetta plagg sem hv. þm. Kristján Möller er sífellt að vitna í varðandi umferðaröryggisáætlun Reykjavíkurborgar er ekki meira en svo að ekkert hefur verið gert í því að taka ákvörðun um þessi fjölförnu gatnamót. Það vita allir sem vilja vita, og m.a. hv. þm. Kristján Möller sem er í samgn., að ef Reykjavíkurborg hefði sagt: Við forgangsröðum Miklubraut/Kringlumýrarbraut, hefði verið farið í það mannvirki hið snarasta. En það var ekki hægt út af einhverri ringulreið í hugsunarhætti R-listamanna.

Varðandi það, herra forseti, hvað hægt er að gera til að efla enn frekar umferðaröryggi á vegum landsins vil ég ítreka að slysum hefur fækkað en það er ekki nóg að gert, og að því komum við einmitt í umræðunni á eftir. Þar er metnaðarfullt markmið sett, að við ætlum okkur að fækka enn frekar umferðarslysum, og ég veit að ég og hv. þm. Kristján Möller erum sammála um það. Við þurfum að auka aðhaldið meðal ungra ökumanna. Við þurfum að hafa fræðslu og jákvæða uppbyggingu, sérstaklega fyrir þessa ungu ökumenn. Við þurfum að hugsa um punktakerfið. Skilar það okkur því sem við viljum að það skili okkur? Þetta er gott kerfi en það má bæta.

Við sjáum líka að hærri sektir skila sér í auknu aðhaldi og þá sérstaklega í hraða meðal ungra ökumanna og líka meðal hinna eldri. Það er verið að gera mikið af góðum og merkum hlutum. Það er ákveðin stefna í gangi og við eigum að reyna að fylgja henni, sameinuð.