Umferðarlög

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 18:15:33 (7180)

2002-04-08 18:15:33# 127. lþ. 114.27 fundur 652. mál: #A umferðarlög# (Umferðarstofa o.fl.) frv. 83/2002, JÁ
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[18:15]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Þessi umsnúningur ríkisstjórnarinnar og hæstv. dómsmrh. í einkavæðingarmálum vekur athygli mína. Mér kemur þetta afar mikið á óvart. Ég minnist þess þegar verið var að einkavæða Bifreiðaskoðun á sínum tíma. Þá fóru hér fram langar og miklar umræður þar sem menn tókust á um þessa hluti. Satt að segja fannst ýmsum ekki glæsilegt hvernig menn höfðu hugsað sér að hafa þetta, þ.e. að bifreiðaskráningin ætti að vera hjá einkavæddu fyrirtæki og síðan áttu aðrir að stofna önnur einkavædd fyrirtæki sem ættu að keppa við þetta einkavædda fyrirtæki sem hefði bifreiðaskrána. Menn voru staffírugir yfir því að það væri bara rosalega fínt að hafa þetta svona.

Svo hröktust menn auðvitað frá þessu því að þetta var tóm vitleysa og nú eru menn komnir allan hringinn. Ég fagna því. Ég verð að segja alveg eins og er, að ég fagna því. Nú eru menn komnir til baka og sjá að þetta er ekkert voðalega sniðugt. Grundvöllur einkavæðingar hlýtur alltaf að vera sá að hægt sé að mynda einhvers konar samkeppnisumhverfi fyrir starfsemina sem um er að ræða. Það er einfaldlega ekki fyrir hendi fyrir þá starfsemi sem hér er.

Ég missti af fyrstu ræðum hér í dag og veit ekki hvort menn hafa lesið bréf sem a.m.k. sumir þingmenn fengu frá starfsmönnum Skráningarstofunnar. Ég ætla, með leyfi forseta, að lesa þetta stutta bréf sem 40 starfsmenn Skráningarstofunnar skrifa undir.

Það hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

,,Yfirvofandi breytingar munu að okkar mati raska því góða starfi sem hjá okkur er unnið og því jafnvægi sem við höfum náð í starfsemi okkar. Einnig erum við hissa á þessari stefnubreytingu ríkisstjórnarinnar sem hefur haft einkavæðingu að markmiði. Teljum við að rekstur hlutafélags sé skilvirkari en stofnanarekstur. Við viljum því biðja ykkur að gæta hags okkar og tryggja okkur áframhaldandi starfsgrundvöll í því umhverfi sem við nú störfum í.``

Undir þetta skrifa, að mér taldist til í snarheitum, 40 manns. Þetta er þeirra sjónarmið og ég virði það fullkomlega. Ég hef að vísu aðra skoðun en þetta fólk en ég tel ástæðu til að koma skilaboðum þess til skila.

Erindi mitt í ræðustól er fyrst og fremst að segja að ég er ekki á móti einkavæðingu en ég tel að sú einkavæðing þurfi að byggjast á því að hægt sé að mynda samkeppnisumhverfi þar sem nokkrir aðilar takist á um starfsemina og bjóði þjónustu. Það er einfaldlega ekki hægt í öllum tilfellum í okkar litla landi og þetta er að mínu viti eitt þeirra atriða sem við getum ekki kannski myndað mikla samkeppni um.

Þetta er ekki eini leiðangurinn í einkavæðingu sem hefur farið illa á undanförnum árum. Við sáum hvernig farið var í einkavæðingu skoðunarstofa í sambandi við fiskeftirlit og skip. Menn voru þar komnir af stað með ein átta fyrirtæki. Þessi fyrirtæki voru í samkeppni um að gefa vottorð um eftirlit í sjávarútveginum. Auðvitað varð þetta margfalt dýrara en verið hafði áður og gekk ekki eins og til var ætlast.

Í málinu sem við sjáum hér finnst mér þó virðingarvert að menn hafi séð að sér. Menn hafa þó séð að þetta gengur ekki og vilja ganga til baka. Ég tek undir þá gagnrýni sem hefur komið fram á k-lið 7. gr. frv. Ég tel að menn ættu bara að varast vítin og setja ekki inn ákvæði sem bjóða upp á að dómsmrh. næstu ára geti slysast til að gera nýjar tilraunir af þessu tagi. Það væri a.m.k. ástæða til að fleiri en hann bæru ábyrgð á slíkri tilraun, ekki eingöngu einn ráðherra. Ég hvet til að þessu ákvæði verði bara kippt út úr frv. Sá dómsmrh. sem hefði áhuga á að fara í nýjan einkavæðingarleiðangur á þessu sviði þyrfti þá að leggja á sig að fá slíkar fyrirætlanir samþykktar á hv. Alþingi. Ég held að það sé affarasælast.

Ég ætla að geyma mér að ræða um umferðaröryggismál í tengslum við þetta. Ég verð þó að segja að ég hef því miður fullar efasemdir um að ákvæðin sem sett eru hér í 1. gr. frv. nái þeim árangri sem við vildum sjá. Ég verð að viðurkenna þá skoðun mína að því miður hafi nokkur fjöldi ungra ökumanna ekki þroska til að fá ökupróf fyrr en upp úr tvítugu. Ég þekki því miður þó nokkuð mörg dæmi þessa. Með einhverjum ráðum þarf að hafa reglurnar þannig að þetta fólk sé ekki að skaða sig sjálft og aðra. Það þarf þess vegna mjög strangar reglur um þessa hluti.

Ég tel að það kæmi vel til greina að hafa lágmarksaldur til bílprófs hærri en hér er. Satt að segja sé ég ekki neina óskaplega nauðsyn á því að hann sé svo lágur. Mér finnst að nefndin ætti að gefa sér svolítinn tíma til að fara yfir þessi mál þó að ég viti svo sem ósköp vel að það hefur verið gert í gegnum tíðina. Menn hafa rætt þetta fram og til baka. En því miður valda ungir ökumenn, og sérstaklega karlmenn, langflestum þessara slysa. Þeir hafa ekki þroska til að hafa bílpróf. Þannig er það því miður.

Alþingi ber ábyrgð á þeim reglum sem um þetta gilda. Það er ekki vansalaust að horfa upp á öll slysin sem verða af völdum þessa hóps. Ég held að það verði að standa vaktina mjög vel hvað þetta varðar. Ef þær reglur sem menn hyggjast núna setja virka ekki verða menn einfaldlega að taka á þessu máli með því að hækka lágmarksaldurinn. Það er skoðun mín í þessu samhengi.