Umferðarlög

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 18:24:14 (7181)

2002-04-08 18:24:14# 127. lþ. 114.27 fundur 652. mál: #A umferðarlög# (Umferðarstofa o.fl.) frv. 83/2002, dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[18:24]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ábendingar hans.

Auðvitað er ósköp eðlilegt að skoðanir geti verið skiptar um umferðaröryggismál og hvaða leiðir séu bestar til að ná því markmiði að fækka slysum. En ég vil benda á að ég tel það mikið gleðiefni að í síðustu umferðaröryggisáætlun náðist einmitt þetta markmið, m.a. að fækka slysum. Fram á það er hægt að sýna með tölum.

Varðandi unga ökumenn hygg ég að allir þingmenn deili áhyggjum af þeim og þætti þeirra í slysum í umferðinni. Það hafa auðvitað orðið skelfileg slys í umferðinni og miklar mannfórnir, því miður. Ég held að allir séu sammála um að við verðum að taka í sameiningu á þeim málum. Eins og við vitum eru skiptar skoðanir um ökuprófsaldurinn, hvort það eigi að hækka hann eða ekki. Þó er gerð tilraun til að koma til móts við þau sjónarmið í þessu frv., þ.e. með því að benda á að eftir þrjú ár, eftir að akstursmat hefur farið fram, verði gerð úttekt á því hvernig sú breyting hefur reynst, hvort hún hafi leitt til fækkunar slysa hjá ungum ökumönnum eða hvort ástæða sé til frekari breytinga, þar á meðal hvort hækka eigi þennan aldur. Ég vildi láta það koma fram.

Varðandi þetta bréf frá starfsmönnum Skráningarstofunnar hef ég auðvitað séð það eins og allir aðrir þingmenn. En ég vil benda hv. þm. sérstaklega á bls. 8 í frv. þar sem fjallað er um ákvæði til bráðabirgða. Þar er talað um að skipuð verði sérstök verkefnisstjórn sem muni meta hvaða verkefni fara undir þessa stofnun, hvernig deildaskipting stofnunarinnar skuli vera o.s.frv. En það er líka tekið fram að starfsfólki Umferðarráðs skuli boðin störf hjá Umferðarstofnun. Einnig er lagt til að heimilt verði að bjóða starfsfólki Skráningarstofunnar hf. störf hjá Umferðarstofnun þegar ákvarðanir um tilfærslu verkefna frá Skráningarstofunni til Umferðarstofnunar liggja fyrir.