Umferðarlög

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 18:32:01 (7185)

2002-04-08 18:32:01# 127. lþ. 114.27 fundur 652. mál: #A umferðarlög# (Umferðarstofa o.fl.) frv. 83/2002, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[18:32]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hér er fjallað um breytingu á umferðarlögum en meginefni frv. er að koma á heildstæðu skipulagi á stjórnsýslu umferðarmála með því að sameina verkefni Skráningarstofunnar hf. og Umferðarráðs og ýmis verkefni dómsmrn. og fela þau einni stofnun, Umferðarstofnun.

Í umsögn um 6. gr. frv. er vísað til Umferðarstofnunar sem ríkisstofnunar og í 7. gr. eru síðan tíunduð þau verkefni sem hún á að hafa á hendi. Það er að:

,,a. annast skráningu ökutækja og aðra umsýslu varðandi skráningu ökutækja, gerð þeirra og búnað,

b. annast ökupróf, veita leyfi til að starfrækja ökuskóla og hafa umsjón með ökunámi og eftirlit með ökukennslu,

c. veita leyfi til að annast skoðun ökutækja og hafa eftirlit með þeirri starfsemi í samvinnu við Löggildingarstofu,

d. annast fræðslu og upplýsingamiðlun um umferðarmál,

e. styðja aðgerðir sem stuðlað geta að bættu umferðaröryggi,

f. vera stjórnvöldum og öðrum til ráðuneytis um umferðarmál,

g. annast mótun reglna er varða ökutæki og umferð,

h. annast skráningu umferðarslysa og rannsóknir á orsökum umferðarslysa,

i. sinna þróunarverkefnum á starfssviði sínu,

j. annast rekstur á tölvu- og upplýsingakerfum og

k. annast önnur verkefni samkvæmt ákvörðun dómsmálaráðherra.``

Þetta eru þau verkefni sem sú ríkisstofnun, sem svo er skilgreind í umsögn um frv., á að annast. Síðan kemur í ljós, eins og hér hefur verið bent á við umræðuna, að þeirri stofnun er heimilt að fela öðrum framkvæmd verkefna sem henni tilheyra samkvæmt reglum sem dómsmrh. setur.

Hér er vert að fá nánari skýringar á því hvað af þeim liðum sem taldir hafa verið upp gætu hafnað út í markaðsvæðingu. Stendur t.d. til að einkavæða mótun reglna er varða ökutæki og umferð? Kæmi til greina að vinna við þetta yrði markaðsvædd? Er ekki eðlilegt að verkefni á borð við þessi séu hjá ríkisstofnuninni? Mér finnst harla undarlegt að fela það í sjálfsvald hæstv. dómsmrh. á hvern hátt hann skilgreinir verkefni ríkisstofnunarinnar annars vegar og þeirra sem kæmu til með að annast einstök verkefni á markaði hins vegar. Þetta er allt of óljóst.

Það er svo sem engin nýlunda að fara þessa leið í einkavæðingu. Menn þekkja það t.d. frá almannasamgöngum, þar á meðal víða á Norðurlöndunum, að svo á að heita að almannasamgöngur séu á vegum sveitarfélaganna þegar þær í reynd hafa verið einkavæddar. Þannig er það t.d. í Kaupmannahöfn að fyrirtæki eða stofnun öllu heldur, almannastofnun á vegum borgarinnar og rekin af henni, annast umsýslu almannasamgangna í Kaupmannahöfn. Hins vegar er sjálf framkvæmdin, rekstur strætisvagnanna og eignarhald á öllum tækjabúnaði í höndum einkafyrirtækja. Þetta eru í rauninni ekkert annað en orðin tóm þegar talað er um eða vísað er til slíkra stofnana sem opinberra stofnana. Þessu má líkja við egg þar sem skurnin er á vegum almannaþjónustunnar en allt sem þar er fyrir innan er einkavætt og verið er að opna á það í frv.

Hins vegar eru aðrir þættir í frv. sem vert er að gaumgæfa og hafa vakið talsverða umræðu við 1. umr. málsins. Að sjálfsögðu ber að lofa það þegar frv. er sett fram fyrir lok þings þannig að gott tóm gefist yfir sumarið til að skjóta því til umsagnar til þeirra aðila sem um málin eiga að fjalla þannig að þingið sé betur í stakk búið þegar það kemur saman að hausti til að taka á málinu áður en það verður afgreitt sem lög.

Ég mun að sjálfsögðu leggja mitt af mörkun í umfjöllun allshn. þar sem ég á sæti sem áheyrnarfulltrúi þegar kemur að því að fjalla um málið bæði núna í vor og í haust eftir að umsagnir um frv. hafa borist. En það er greinilegt af þeirri umræðu sem þegar hefur farið fram, þar sem menn hafa þó lítið gert annað en að viðra almenn sjónarmið að ýmsar hugmyndir eru uppi.

Ég vil taka fram að ég fékk einnig í hendur bréf frá starfsmönnum Skráningarstofunnar hf. þar sem fólkið lýsti áhyggjum af framtíð sinni. Reyndar hafði það miklar áhyggjur af því að hafna inni í ríkisstofnun, vildi gjarnan vera í hlutafélagi, (Gripið fram í.) vera markaðsvætt. Nei, ég er sammála fólkinu að því leyti að ég vil standa vörð um atvinnuöryggi þess og fagna þeim yfirlýsingum sem komu frá hæstv. dómsmrh. áðan varðandi það atriði. Hins vegar er ég ósammála starfsmönnunum hvað viðvíkur rekstrarforminu. Ég tel að hér sé um svo almenna stjórnsýslu að ræða að þetta eigi heima hjá opinberri stofnun, þótt ég geti fallist á að einstaka verkþættir verði þess vegna boðnir út eða fengnir í hendur einkafyrirtæki, sitthvað sem lýtur að tölvum og öðru slíku.

En þegar kemur að hinu, að annast mótun reglna er varða ökutæki og umferð og annað sem snertir sjálfan kjarna stjórnsýslunnar þá tel ég að það eigi tvímælalaust heima hjá opinberri stofnun.