Umferðarlög

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 18:39:28 (7186)

2002-04-08 18:39:28# 127. lþ. 114.27 fundur 652. mál: #A umferðarlög# (Umferðarstofa o.fl.) frv. 83/2002, GAK
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[18:39]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Mig langar að gera að smáumræðuefni ákveðið atriði í frv. sem ekki hefur komið fram í umræðunni, en það er í b-lið 1. gr. þar sem sagt er: ,,hafi ekki í eitt ár samfellt fengið punkta í punktakerfi vegna umferðarlagabrota``. Þetta er sem sagt um það að ungt fólk eigi að geta fengið útgefið varanlegt skírteini.

Síðar segir í athugasemdum á bls. 5 um 1. gr.:

,,Telji hann ökumann`` --- þ.e. ökukennari sem framkvæmir akstursmat --- ,,vel hæfan kveður hann á um þann árangur í umsögninni og getur mælt með því að hann fái útgefið fullnaðarskírteini.``

Í 1. gr. virðist mér að í b-lið sé algjörlega tæmandi og takmarkandi tálmun á því að þrátt fyrir að viðkomandi hafi farið í akstursmat og að áliti ökukennara staðist allar kröfur og sýnt afburðahæfni við aksturslag þá geti hann ekki öðlast framtíðarskírteini vegna þess að hann hafi e.t.v. á fyrsta mánuði ökuferils síns gerst brotlegur og fengið einhvern punkt.

Nú er það svo og allir þekkja það að menn geta fengið punkta í þessu punktakerfi af ýmsum mismunandi ástæðum. Ég nefni sem dæmi hálku á vegamótum, þegar menn ætla að stöðva og ná því ekki og telja þá skynsamlegast að fara yfir vegamótin frekar en eitthvað annað án þess að það valdi slysi. Ég nefni ungan ökumann sem fylgir umferðarhraða annarra á þjóðvegi, sem er víðast hvar svona rýmilega yfir mörkum.

Ég er að vekja athygli á þessu vegna þess að mér finnst það dálítið snúið að ef ungur maður hefur fengið einn eða tvo punkta snemma á ökuferli sínum í þessu svokallaða punktakerfi og síðan ekki söguna meir, hefur síðan sýnt af sér alla hæfni þess að vera mjög fær og góður ökumaður að mati þess sem prófar hann, að þá skuli það samt vera svo að sá sem framkvæmir akstursmatið, ökukennarinn, þó að hann að öllu leyti telji manninn hæfan til að fá skírteini til frambúðar, þá sýnist mér að honum sé það alls ekki heimilt samkvæmt b-lið 1. gr.

Um þetta vildi ég spyrja og þá jafnframt hvort ekki væri rétt að athuga í fyrsta lagi um hve marga punkta þarna ætti að vera að ræða eða á þetta að vera eins og hér er uppsett alfarið fall á fyrstu mistökum hvernig svo sem ökuferill mannsins er að öllu öðru leyti?