Persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 18:55:21 (7190)

2002-04-08 18:55:21# 127. lþ. 114.28 fundur 653. mál: #A persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga# (rafræn vöktun o.fl.) frv. 81/2002, dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[18:55]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nr. 77/2000.

Meginefni þessa frv. er tvenns konar. Annars vegar er er lagt til að lögfest verði ákvæði sem kveða skýrt á um í hvaða tilvikum megi safna efni með viðkvæmum persónuupplýsingum sem verður til við rafræna vöktun og hvernig skuli fara með slíkt efni. Þá eru gerðar nokkrar breytingar á ákvæðum laganna um fræðslu- og viðvörunarskyldu ábyrgðaraðila gagnvart hinum skráða.

Notkun einkaaðila á búnaði til sjónvarpsvöktunar hefur aukist verulega. Í lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga er ekki kveðið sérstaklega á um hvernig skuli fara með myndefni sem verður til við sjónvarpsvöktun heldur hafa almenn ákvæði laganna verið látin taka til vinnslunnar. Vegna séreðlis þessarar vinnslu gæti reynst torvelt að finna henni stoð í ákvæðum laganna, jafnvel þótt hún kunni að eiga sér fyllilega lögmætt og málefnalegt markmið. Með frumvarpinu er leitast við að bæta úr þessu.

Samkvæmt 1. gr. frv. verður heimilt að safna hljóð- og myndefni sem verður til við rafræna vöktun að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Í fyrsta lagi þarf vöktunin að vera nauðsynleg og fara fram í öryggis- og eignavörsluskyni, í öðru lagi má ekki vinna frekar eða afhenda efni sem verður til við vöktunina án samþykkis þess sem upptaka er af. Þó er alltaf heimilt að afhenda lögreglu slíkt efni ef það inniheldur upplýsingar um refsiverðan verknað eða slys. Í þriðja lagi er skylt að eyða því efni sem til verður við vöktunina innan ákveðinna tímamarka eða þegar ekki er lengur málefnaleg ástæða til að varðveita það. Sá tímafrestur mun almennt vera skammur.

Þá felur frv. einnig í sér heimild fyrir Persónuvernd að setja nánari reglur um vöktunina og vinnslu efnis sem verður til við hana, sbr. 5. gr. frv. Slíkar reglur mundu t.d. kveða nánar á um hversu lengi mætti varðveita myndefni og gæfu svigrúm til að kveða á um mismunandi varðveislutíma eftir því á hvernig stað vöktunin færi fram, t.d. hvort um væri að ræða vínveitingahús eða banka.

Sökum gríðarlegrar aukningar á notkun eftirlitsmyndavéla er nauðsynlegt að skýr ákvæði séu í lögum um notkun slíks búnaðar og hvernig beri að fara með myndefnið sem safnast við eftirlitið. Með þeirri lagabreytingu sem lögð er til með 1. gr. frv. mun t.d. ekki leika vafi á því að óheimilt er að senda myndefni sem safnast við slíkt eftirlit til fjölmiðla eða setja inn á veraldarvefinn nema samþykki þess sem myndefnið er af liggi fyrir.

Þá felst loks í frv. breyting á ákvæðum 20. og 21. gr. laga um fræðslu og viðvörunarskyldu sem hvílir á þeim sem safnar upplýsingum. Breytingarnar miða einkum að því að samræma efni og framsetningu þessara tveggja greina, einfalda efni þeirra og laga textann betur að Evróputilskipun 95/46, en það er sú tilskipun sem núgildandi lagaákvæði byggja á. Breytingin er til hægðarauka fyrir þá sem þurfa að vinna með lögin, bæði fyrir þá sem vinna persónuupplýsingar, svo sem fyrirtæki og stofnanir sem annast vísindarannsóknir og þá aðila sem starfa í stjórnsýslunni.

Þá felst einnig mikilvæg efnisbreyting í frv. sem hefur það markmið að einfalda verulega stjórnsýslu sem tengist 21. gr. laganna. 21. gr. fjallar um skyldu þess sem aflar upplýsinga til að tilkynna hinum skráða ef upplýsinga er aflað frá öðrum en hinum skráða. Í 2. mgr. greinarinnar eru svo undanþágur frá þeirri meginreglu. Ein undanþága er háð því að tilkynning til aðila sé að mati Persónuverndar óframkvæmanleg eða leggi þyngri byrðar á þann sem safnar upplýsingum en með sanngirni megi krefjast. Samkvæmt ákvæðinu metur Persónuvernd hvort undanþáguákvæðið eigi við í hvert skipti sem til greina kemur að beita því.

Til að einfalda stjórnsýslu og minnka skriffinnsku er lagt til í frv. að ekki þurfi að sækja sérstaklega um leyfi Persónuverndar til að beita þessari undanþágu frekar en öðrum undanþágum í ákvæðinu. Í athugasemdum með frv. er lögð áhersla á að þessi undanþága eigi einkum við um vísindarannsóknir eins og kveðið er á um í tilskipun 95/46/EB. Nefndar eru sem dæmi vísindarannsóknir á heilbrigðissviði sem hlotið hafa samþykki siðanefndar eða vísindasiðanefndar samkvæmt lögum um réttindi sjúklinga. Persónuvernd fer eftir sem áður með eftirlit með því að lögunum sé framfylgt. Til að tryggja að Persónuvernd geti sinnt þessu eftirlitshlutverki á skilvirkan hátt er lagt til að ábyrgðaraðila verði gert skylt að tilkynna Persónuvernd um hvernig hann hyggist uppfylla fyrirmæli 20. og 21. gr. áður en vinnsla persónuupplýsinga fer fram, sbr. 4. gr. frv. Þannig getur Persónuvernd gripið inn í ef hún telur ástæðu til. Verði ágreiningur um réttmæti beitingar undanþáguheimildarinnar sker Persónuvernd úr því álitaefni rétt eins og hún sker úr öðrum deilum um túlkun laganna.

Herra forseti. Ég hef í meginatriðum gert grein fyrir efni frv. og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allshn. og 2. umr.