Tækniháskóli Íslands

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 20:39:46 (7205)

2002-04-08 20:39:46# 127. lþ. 114.31 fundur 649. mál: #A Tækniháskóli Íslands# frv. 53/2002, EMS
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[20:39]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Í upphafi er rétt að fagna því að þetta frv. skuli vera hér til umræðu, og meira fagnaðarefni ef það hefði verið nokkru fyrr. En eins og fram kemur í athugasemdum við lagafrv. og kom fram hjá hæstv. menntmrh. hafa á undanförnum tveimur árum staðið yfir tilraunir til að ná samstarfi við aðila vinnumarkaðarins um að þeir tækju þátt í eða yfirtækju rekstur skólans. Þess vegna má segja að of langur tími hafi liðið í þeim tilraunum því að þær hafa ekki borið árangur. Auðvitað hefði verið ástæða til að yfirheyra hæstv. ráðherra um hvað olli því að svo mikill tími fór í þær árangurslausu viðræður en um ástæður þess veit kannski fyrrv. menntmrh. meira.

Þó er nauðsynlegt, herra forseti, að spyrja hæstv. ráðherra eins. Á undanförnum árum hefur líka verið nokkuð í umræðunni um framtíð þessa annars ágæta skóla hvort hugsanlegt væri að færa hann annað, allan eða að hluta, t.d. til Háskólans á Akureyri, eða gera einhverjar breytingar varðandi verkfræðideild Háskóla Íslands, annaðhvort með því að færa einhvern hluta frá verkfræðideildinni eða einhvern hluta af Tækniskólanum til verkfræðideildarinnar. Ég ætla ekki á þessu stigi að fjölyrða mikið um það en fróðlegt væri að heyra viðhorf hæstv. menntmrh. til þeirra hugleiðinga.

Það eru örfá atriði, herra forseti, á þessu stigi sem ég vildi gera að umræðuefni. Ég vil þó taka fram að ég geri ráð fyrir að hv. menntmn. muni einbeita sér að því að hraða störfum eins og kostur er um þetta frv. Ég tel allar líkur á að mikill samhljómur sé í nefndinni um mikilvægi þess að ljúka vinnu við það því að of lengi hefur nýrra laga um Tækniháskóla Íslands verið beðið, eins og ég sagði áðan.

Já, það eru nokkur atriði, herra forseti, sem ég vildi velta aðeins upp hér. Ég vildi gjarnan að hæstv. menntmrh. gæfi okkur skýringar á mun á ákvæðum í þessu frv. til laga um Tækniháskóla Íslands og þeim sem ég hef verið að skoða um Kennaraháskólann varðandi ráðningu, t.d. prófessora, dósenta og lektora. Það er aðeins öðruvísi orðalag í frv. en í lögum um Kennaraháskólann og mér virðist eins og ekki sé jafnmikill metnaður til handa Tækniháskólanum og er þó í Kennaraháskólanum varðandi þessar ráðningar. Á því eru þær skýringar hugsanlegar að lög Kennaraháskólans eru eldri og menn hafa e.t.v. verið að færa þetta eitthvað nær reynslunni.

Þó er hér atriði sem ég tel rétt að hæstv. ráðherra skýri líka fyrir okkur, og það er að nú eru teknar út allar skýringar á hinum svokölluðu skrásetningargjöldum. Í lögum um Kennaraháskólann er nokkuð skýrt af hverju þessi gjöld taki mið, þ.e. af kostnaði vegna innritunar, kennsluefnis og pappírsvara sem skólinn lætur nemendum sínum í té og nauðsynlegt er vegna starfsemi háskólans. Á undanförnum árum hafa orðið töluverðar umræður, einmitt nú síðast við afgreiðslu fjárlaga og bandorms sem tengdist breytingum á ríkisfjármálunum, um þessi efni. Mér sýnist, miðað við það orðalag sem hér er, að verið sé að stíga enn eitt skrefið í þá átt að auðveldara verði að hækka þessi gjöld án þess að þurfa að færa jafnsterk rök fyrir því og verið hefur fram að þessu. En það væri fróðlegt, herra forseti, ef hæstv. ráðherra gæti gefið okkur skýringar á því af hverju orðalag hér er töluvert frábrugðið því sem er í lögum um Kennaraháskóla Íslands.

Í háskólaráði væntanlegs Tækniháskóla sitja miklum mun færri en t.d. í Kennaraháskólanum, og ég tek eftir því í athugasemdum við einstakar lagagreinar að þar er kveðið á um fjöldann, samanber það sem segir í athugasemd við 5. gr. frv., með leyfi forseta:

,,Lagt er til að háskólaráð verði ekki fjölmennara en nauðsynlegt má teljast eða að sex fulltrúar skipi ráðið.``

Það eru hins vegar níu fulltrúar sem skipa ráðið í Kennaraháskólanum. Þá vekur athygli að fulltrúum menntmrn. er ekki fækkað þannig að menntmrh. skipar tvo af sex í væntanlegt háskólaráð Tækniháskóla Íslands en tvo af níu í háskólaráð Kennaraháskóla Íslands. Það er því eðlilegt, herra forseti, að spyrja hæstv. menntmrh. hverju það sæti að hlutfall menntmrn. þurfi að vera mun hærra í væntanlegum Tækniháskóla en t.d. í Kennaraháskóla Íslands.

[20:45]

Í 13. gr. frv., herra forseti, er rætt um að háskólaráði sé heimilt að semja við félög nemenda, hollvinasamtök o.s.frv. Herra forseti. Mér er kunnugt um að hæstv. menntmrh. þekkir býsna vel til í Háskólanum á Akureyri. Þar hafa menn komist að þeirri niðurstöðu að kalla ekki samtök sem þessi ,,hollvinasamtök`` heldur ,,góðvinasamtök``. Væri hæstv. ráðherra mjög á móti skapi að hv. menntmn. velti a.m.k. fyrir sér hvort þarna mætti hugsanlega skipta um orð eða hafa ,,og/eða`` á milli til að geta a.m.k. gefið tækifæri til að menn hefðu sjálfdæmi um hvað þessi annars ágætu samtök hétu. (KHG: Sleppa ,,holl`` og segja bara vinasamtök.) Eða vinasamtök --- þá hefðu menn opið hvaða forskeyti væri þar fyrir framan. Hér er tillaga sem vissulega mætti skoða í nefndinni.

En það er eitt atriði, herra forseti, sem nauðsynlegt er að fá skýringar á en mér finnast ákvæðin varðandi embætti rektors tækniháskóla ekki nægjanlega skýr. Í þeim lögum sem ég hef hér vitnað til, þ.e. kennaraháskólalögunum, voru einmitt líka ákvæði til bráðabirgða sem gengu reyndar út á að rektor Kennaraháskólans yrði rektor hins nýja kennaraháskóla, þ.e. við þær breytingar sem urðu síðast gagnvart þeim skóla. Þar sér maður í ákvæðum til bráðabirgða hvernig tryggð er algjör samfella í embættisfærslunni. Hér er hins vegar örlítið bil á milli. Það segir hér í ákvæðum til bráðabirgða, b-lið, að embætti rektors Tækniskóla Íslands verði lagt niður 3. júní 2002. Hins vegar er gert ráð fyrir að hið nýja háskólaráð, sem á að taka til starfa 1. júní 2003, eigi að ganga frá tilnefningu rektors, sem ráðherra skal skipa skv. 7. gr., eigi síðar en 1. júlí 2002. Þarna líður rétt tæpur mánuður án þess að nokkur gegni embætti rektors skólans. Á meðan á menntmrh. að skipa þrjá fulltrúa í háskólaráðið og á einn þeirra að gegna störfum forseta ráðsins þar til rektor hefur verið skipaður. Það er spurning hvernig á þessu stendur og hvernig eigi að tryggja fullkomlega embættisfærslur þennan mikilvæga tíma, breytingin sem lagafrv. kallar á er væntanlega a.m.k. komin af stað .

Herra forseti. Að lokum vil ég minnast örlítið á fylgiskjalið frá fjmrn. Ég held að þar sé nauðsynlegt að bæta við upplýsingum, það muni flýta fyrir störfum í hv. menntmn. ef hæstv. menntmrh. gæti veitt frekari upplýsingar um þau mál. Það kemur einmitt fram í umsögn fjmrn. að við blasi verulegur uppsafnaður rekstrarhalli í Tækniskólanum. Jafnframt kemur fram að hann hafi numið um 180 millj. kr. í árslok 2001 og hafi aukist um fast að 80 millj. kr. á árinu, þ.e. á því ári sem nú er að líða, samanborið við 45 millj. kr. hallarekstur árið 2000.

Hér virðist um vaxandi rekstrarhalla að ræða. Hér segir einnig, með leyfi forseta:

,,Þessar tölur benda til þess að skólinn muni ekki halda sig innan fjárheimilda á yfirstandandi ári enda þótt þær hafi verið ákveðnar á grundvelli samnings við skólann frá því í ágúst 2001. Fjárhagsvandi skólans er ekki síst tilkominn vegna fámennra nemendahópa á tæknisviðum og mikils kennslustundafjölda. Að óbreyttum fjárveitingum þarf að gera verulegar breytingar á náminu og endurskipuleggja þjónustuna til að draga úr kostnaði.``

Ég held að það sé rétt að vekja athygli á orðalaginu ,,að draga úr kostnaði``. Flest í þessu frv., þegar verið er að færa skólann alfarið yfir á háskólastig, mun eðlilega frekar auka kostnað en hitt.

Berum þetta saman við það sem segir svo örstuttu neðar varðandi stjórnkerfi skólans. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Að óbreyttum reglum um fjárveitingar þarf skólinn að draga úr öðrum kostnaði til að mæta því að væntanlega mun stjórnunarkostnaður aukast.``

Herra forseti. Þetta er auðvitað býsna erfitt mál fyrir nýjan skóla, þ.e. að byrja við þessar aðstæður. Því er eðlilegt að spyrja hæstv. menntmrh. hvort ekki muni fylgja í kjölfar þessa óskir, a.m.k. af hálfu hæstv. menntmrh., um að þessum aukna kostnaði verði mætt á annan hátt en þann að skólinn þurfi að byrja á að draga úr ýmsum öðrum kostnaði við að fara af framhaldsskólastigi yfir á háskólastigið.

Herra forseti. Þetta heldur nefnilega áfram hér í næstu klásúlu, þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Kostnaði vegna hærri meðallauna`` --- það er nú eiginlega sjálfgefið við þessa tilfærslu --- ,,þarf skólinn að mæta með lækkun kostnaðar á öðrum sviðum að óbreyttum reglum um framlög til kennslu í háskólum.``

Herra forseti. Ýmislegt virðist benda til að skoða þurfi gaumgæfilega fjármálahlið þessa máls. Það er auðvitað býsna mikilvægt vegna þess, eins og ég vitnaði í áðan, að því miður hefur verið viðvarandi rekstrarhalli á Tækniskólanum. Það er að sjálfsögðu ekki mjög góð meðgjöf við þessar breytingar.

Herra forseti. Rétt að lokum segir hér í ummælum fjárlagskrifstofu fjmrn.:

,,Þegar á allt er litið telur fjármálaráðuneytið í fyrsta lagi að frumvarpið gefi tilefni til nokkurs útgjaldaauka sem skólinn þarf að óbreyttum reglum um fjárveitingar að mæta með hagræðingu í rekstri.``

Herra forseti. Ég geri ekki lítið úr því að skólar eins og aðrar stofnanir sinni hagræðingu í rekstri. Það er ábyggilega hægt að ná hagræðingu í rekstri þessarar stofnunar eins og ýmissa annarra stofnana. En ég held að flestum sé ljóst að það er býsna erfitt að fara í breytingarnar sem fylgja þessu lagafrv. ef að auki þarf að grípa til margs konar hagræðingar í rekstri. Þessi breyting ein og sér hlýtur óhjákvæmilega að kalla á aukinn kostnað.

Herra forseti. Ég ítreka það sem ég sagði í upphafi, að þrátt fyrir þessar einstöku athugasemdir fagni ég framkomu þessa frv. Ég tel að hv. menntmn. muni leggja sig mjög fram um að reyna að hraða störfum við frv. eins og best verður á kosið.