Tækniháskóli Íslands

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 21:02:31 (7207)

2002-04-08 21:02:31# 127. lþ. 114.31 fundur 649. mál: #A Tækniháskóli Íslands# frv. 53/2002, SJóh
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[21:02]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst og fremst koma upp til að fagna þessu frv. sem við höfum lengi beðið hér, við sem sitjum í hv. menntmn. Á ýmsu hefur gengið á undanförnum árum og stundum hélt maður að sá skóli mundi hreinlega hverfa í björg og það hin undarlegustu björg. En nú standa mál þannig að hér sitjum við eða stöndum og tölum fyrir frv. til laga um Tækniháskóla Íslands á Alþingi Íslendinga og eftir því sem mér heyrðist á hæstv. ráðherra menntamála er meiningin að afgreiða frv. fyrir vorið. Ég fagna því ákaflega og ég mun leggja mitt af mörkum til að frv. fái farsæla, góða og skjóta --- tek ég undir það með hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur 17. þm. Reykv. --- afgreiðslu í hv. menntmn.

Frv. er flutt til að samræma lög um Tækniskóla Íslands lögum um háskóla. Um nokkurt skeið hefur Tækniskóli Íslands verið rekinn að mestu leyti á háskólastigi. Öll kennsla þar hefur verið á háskólastigi og það hefur háð skólanum óskaplega mikið að hann hefur í rauninni ekki verið fyllilega viðurkenndur sem háskólastofnun og lengi vel t.d. ekki fengið fjárveitingar sem slíkur. Ég veit ekki hvort á þar einhverja sök að þeir hafa verið innan borðs með frumgreinadeild sem er afskaplega góð deild og nauðsynleg fyrir rekstur skólans, til að brúa það bil sem góðir iðnaðarmenn sem hafa áhuga á frekara framhaldsnámi þurfa að yfirstíga, en frumgreinadeildin er á framhaldsskólastigi og verður það áfram samkvæmt frv. Ég veit ekki hvort þetta hefur átt einhverja sök á því að erfiðlegar hefur gengið en ella að fá skólann viðurkenndan sem háskólastofnun, það má vera, en ég held að þetta sé ein af þeim styrku stoðum sem gerir Tækniskólann að svo góðri skólastofnun sem hún er.

Ég ætla ekki að lengja umræðuna því hér hefur verið farið ákaflega vel ofan í þau atriði sem ég hafði hugsað mér að minnast á, en ég verð þó að koma að þeim ígrundunum fjmrn., fjárlagaskrifstofu, um fjárhag skólans. Ég verð að segja að það tók mig allharkalega niður úr skýjunum sem ég sat á, þar sem ég hélt frv. í höndunum, þegar ég las þessa umsögn þar sem mér finnst verið að hóta því að jafnframt þeim breytingum á skólanum yfir í tækniháskóla verði settar á hann sérstakar hagræðingarkröfur. Það var ekki það sem ég átti sérstaklega von á vegna þess að þær vonir sem ég bind við þennan skóla eru að það takist sérstaklega að efla þær deildir skólans sem eru með sérstaka tæknimenntun á sínum vegum.

Segja má að ýmiss konar rekstrartækni megi læra í öðrum háskólum á Íslandi, en tæknihliðinni hefur ekki verið annars staðar betur sinnt en í Tækniskólanum og þær deildir eru einmitt dýrar og þær þarf sérstaklega að efla með öllum ráðum til heilla fyrir íslenska þjóð. Og það mun kosta. Ákveðið grunnkapítal verður að leggja í það, en það mun líka margborga sig fyrir þjóðina þegar upp er staðið því það er kannski ekkert nám sem launar þjóðinni eins vel og gott og öflugt tækninám.

Ég vona að við þurfum ekki að hafa miklar áhyggjur af fylgiskjalinu sem heitir umsögn frá fjmrn. Ég vona að einhver smámistök og misskilningur hafi valdið þeim niðurstöðum sem þeir ágætu sérfræðingar sem þar um véla hafa komist að og þeir þurfi aðeins að hugsa sig betur um og jafnvel skila einhverju aukafylgiskjali áður en við förum áfram með málið til afgreiðslu.