Tækniháskóli Íslands

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 21:08:28 (7208)

2002-04-08 21:08:28# 127. lþ. 114.31 fundur 649. mál: #A Tækniháskóli Íslands# frv. 53/2002, KHG
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[21:08]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Eftir frv. sem hér er til umræðu hefur verið beðið nokkuð lengi eins og heyra má á ræðum hv. þm. því menn hafa viljað skipa málum tæknimenntunar með öðrum hætti og betri en verið hefur og það er ekki að ástæðulausu að menn hafi kallað eftir breytingum á því sviði. Ég tel að þær viðræður sem hafa verið í gangi undanfarin ár við Margmiðlunarskólann hafi heldur hægt á þeirri þróun, sem hefði þurft að vera hafin fyrir löngu, að styrkja tækninám, færa það yfir á háskólastig og gera það öflugra en menn hafa búið við til þessa.

Ég vil þó segja fyrst um málið að ég tek eftir því að í skýringum með frv. kemur fram að Tækniskólinn er í raun og veru fremur lítill skóli. Miðað við fjárlög þessa árs miðar fjárveiting við um 650 nemendur. Af þeim eru um 150 í frumgreinadeild sem ekki fellur undir háskólastigið og af þeim 500 sem þá eru eftir eru aðeins um 230 á tæknisviði. Ef við skoðum Tækniskólann og greinum starfsemi skólans þannig, athugum hversu margir þar eru beinlínis í því tækninámi sem efni málsins tekur fyrst og fremst til, þá eru þetta innan við 250 nemendur. Það er ákaflega lítill skóli og í raun og veru mjög lítill háskóli. Meiri þörf er á því að skólar á háskólastigi séu sæmilega fjölmennir en skólar á neðri skólastigum og ég hef nokkrar áhyggjur af því að stofna nýjan háskóla og bæta við í háskólaflóruna sem er ekki stærri eða fjölmennari en þessar upplýsingar gefa til kynna.

Ég held að menn eigi því að skoða möguleikana á að byggja upp háskólastigið þar sem hið opinbera hefur afskipti af því með þeim hætti að ekki verði allt of margir skólar á því stigi. Við höfum þegar ekki bara Háskóla Íslands, sem er auðvitað yfirburðastór í þessari háskólaflóru, heldur hafa byggst upp skólar sem ekki eru í raun og veru mjög stórir eins og uppi í Borgarfirði eða á Akureyri. Fremur en að fjölga litlum skólum tel ég að menn eigi að huga að skipulagsbreytingum til að láta þá skóla vinna meira saman og mynda heild sem er öflugri en stefnir í. Ég leyni því ekki að ég tel að menn eigi að skoða möguleikana á því að Tækniháskólinn sem stefnt er að að verði með þessu frv. verði hluti af einhverjum þeim háskólum sem fyrir eru í dag.

Að vissu leyti má segja að eðlilegast sé að tæknimenntun verði sameinuð þeirri starfsemi sem fer fram í Háskóla Íslands. Þar er mesti skyldleiki við starfsemina og sjálfsagt mest samlegðaráhrif. Annar möguleiki er að fella slíka menntun undir Háskólann á Akureyri. Og ég hef nokkurn áhuga á því máli. Ég veit að fram hafa farið viðræður við menntmrn. af hálfu forsvarsmanna Háskólans á Akureyri um það efni og hafa staðið yfir nokkuð lengi. Ég held að hæstv. menntmrn. ætti að taka þann þráð upp að nýju sem spunninn var fyrir tveimur árum í þeim efnum. Ég tel að ýmiss konar ávinningur fengist fram með því móti. Ég tel að það yrði sterkari skóli þó svo hann yrði staðsettur á tveimur stöðum, Akureyri og Reykjavík, sem ég tel enga frágangssök nema síður sé. Sameiginleg yfirstjórn yrði og það mundi byggja upp og styrkja báðar einingar skólans. Ég hvet til þess að slík hugmynd verði skoðuð og mun beita mér fyrir því í menntmn. að svo verði gert.

Ég vil nefna annað sem styrkir það að skoða þennan möguleika og það er sú staðreynd sem segja má að sé orðin almennt viðurkennd að eitt það atriði sem hvað mest styrkir landsbyggð eða landsvæði er starfsemi á háskólastigi, hvort sem það eru skólar eða sjúkrahús eða annað slíkt þar sem eru vinnustaðir háskólamenntaðs fólks sem fellur inn í samfélagið að öðru leyti og myndar almennt meiri breidd í þeim.

Við erum að fjalla um byggðaáætlun í Alþingi um þessar mundir og sú áhersla kemur mjög sterkt fram í þeim gögnum sem unnin hafa verið í aðdraganda þeirrar áætlunar. Ég tel að menn eigi að taka pólitíska ákvörðun um það og vera ófeimnir við að kannast við þær áherslur að stuðla að því að byggja upp háskólamenntun á þremur stöðum á landsbyggðinni utan höfuðborgarsvæðisins. Þar er ég að tala um Ísafjörð, Akureyri og Miðausturland. Ef menn ætla sér að styrkja þau svæði, sem ég hygg að sé pólitísk samstaða um að eigi að gera, a.m.k. endurspeglast eining um það mál t.d. á vettvangi sveitarstjórna, þá verða menn að huga að uppbyggingu menntastofnana á þeim stöðum og koma á fót styrkari stofnunum á þessu sviði, styrkja þær sem fyrir eru og koma þeim á fót þar sem þær eru ekki fyrir.

[21:15]

Ég er ekki að tala fyrir sérstökum háskóla á Austurlandi eða á Vestfjörðum, ég held að það væri ekki skynsamlegt, en ég held að þar eigi að koma á fót háskólakennslu og aðgangi að háskólakennslu í gegnum einhvern þann háskóla sem starfar í dag, hvort sem það er Háskólinn á Akureyri eða einhver annar háskóli. Mér finnst reyndar að af þeim háskólum sem starfa í dag hafi Háskólinn á Akureyri sýnt mikið frumkvæði á undanförnum árum í því að hasla sér völl á landsbyggðinni og að eðlilegt sé að líta fyrst til stjórnenda þess skóla um vilja þeirra til að standa að því með stjórnvöldum að byggja upp háskólamenntun á þeim stöðum, Vestfjörðum og Austfjörðum. Það væri sannarlega vel við hæfi að því yrði stjórnað frá Akureyri sem mundi þá styrkja þann stað líka. Ég nálgast þessi mál líka út frá öðrum forsendum en leggja má kannski til grundvallar sem menntunarlegum, þ.e. byggðarlegum. Mér finnst hvort tveggja mæla með því að menn hugi að því að færa tæknimenntun upp á háskólastig með þeim hætti að fella þá menntun að því kerfi sem fyrir er fremur en að stofna sjálfstæðan skóla sem yrði, a.m.k. miðað við þessar upplýsingar, aldrei annað en mjög lítill skóli.

Ég vil í öðru lagi víkja að 13. gr. frv. um heimild skólans til að taka gjald fyrir þjónustu sem telst utan lögmæltrar þjónustu, svo og gjald til að taka fyrir símenntun og fræðslu fyrir almenning. Ég vil aðeins hreyfa þeim sjónarmiðum að mér finnst ekki endilega sjálfgefið að það fyrirkomulag sem þróast hefur hér á landi á undanförnum árum varðandi greiðslu fyrir aðgang að menntun sé það eina rétta. Mér finnst það ekki sjálfgefið að þeir sem sækja sér menntun eftir að æskuárum er lokið og menn komnir út í atvinnulífið eigi að gera það á þeim forsendum að það sé þeirra að greiða að fullu fyrir þá þjónustu sem þeir sækja, hvort sem það er símenntun eða fræðsla fyrir almenning. Ég tel að menntakerfið eigi að vera fyrir þá hópa ekkert síður en fyrir ungt fólk sem er að afla sér menntunar eftir hefðbundnum leiðum námsins. Ég vil tala fyrir því að það sjónarmið endurspeglist einmitt í gjaldtökunni. Ég tel að við eigum að reka menntastefnu sem höfðar til allra þjóðfélagshópa og aldurshópa og sé ekki sérstaklega að miða að einhverri hefðbundinni leið í gegnum menntakerfið, gera þá leið tiltölulega eins þægilega og hægt er kostnaðarlega séð en þeir sem fara aðrar leiðir þurfi að greiða fyrir þá menntun að fullu eða mjög miklu leyti, eins og við þekkjum í gegnum Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands. Þeir sem fara þangað og sækja sér menntun þurfa að greiða fyrir hana fullu verði. Ég tel að 13. gr. sé út af fyrir sig þannig orðuð að hún geti rúmað þau sjónarmið sem ég tala fyrir, því það segir ekki í henni að heimildin afmarkist við að gjald fyrir símenntun og fræðslu fyrir almenning eigi að vera með þeim hætti að það eigi að standa undir öllum kostnaði við að veita þá menntun. Út af fyrir sig væri fróðlegt að heyra sjónarmið hæstv. ráðherra um það.

Ég tek undir þá ábendingu sem hér kom fram fyrr í umræðunni að mjög nákvæmar skýringar þurfi að vera á skrásetningargjöldum þannig að það fari ekki á milli mála hvað felst í þeirri heimild sem þarna er veitt.

Ég vil, herra forseti, segja að lokum að ég tel að frv. sé heldur til framfara miðað við núverandi ástand, en auðvitað þarf að vinna bug á þeim fjárhagsvanda sem skólinn er í í dag og menn losna ekkert við þann vanda með því að skipta um nafn eða færa skólann að einhverju leyti upp á háskólastig. Menn verða fyrr eða síðar að taka á fjárhagsvanda skólans og ég treysti því að hæstv. ráðherrar, sem það mál brennur á fyrst og fremst, geri sér grein fyrir því og beiti sér fyrir því að það verði gert.