Tækniháskóli Íslands

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 21:22:18 (7210)

2002-04-08 21:22:18# 127. lþ. 114.31 fundur 649. mál: #A Tækniháskóli Íslands# frv. 53/2002, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[21:22]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að hv. þm. hafi eitthvað misskilið það sem fram kom í máli mínu eða ekki heyrt allt það sem ég sagði. Ég nefndi það alveg sérstaklega að þar sem þetta yrði fyrirsjáanlega afar lítill skóli yrði að mínu viti miklu skynsamlegra að fella hann inn í aðra einingu þannig að menn hefðu stærri skóla til að reka og ýmis áhrif af því yrðu til styrktar þeirri menntun. Ég held t.d. að það mundi styrkja tæknimenntunina að tengjast öflugri yfirstjórn og tengjast annarri starfsemi þannig að úr yrði heild sem yrði tiltölulega fjölmenn og af því yrði ávinningur.

Ég lét það einnig koma mjög skýrt fram af minni hálfu þegar ég rifjaði upp þær viðræður sem fóru fram fyrir fáeinum árum milli Háskólans á Akureyri og menntmrn. að gert var ráð fyrir að skólinn starfaði á tveimur stöðum, bæði á Akureyri og í Reykjavík. Mér finnst óþarfi að dramatísera þessa hugmynd með því að tala um að hrekja menn frá námi með því að ætlast til þess að menn sæki námið út á land. Í fyrsta lagi er ekki gert ráð fyrir því í þessum hugmyndum að þeir sem búa á höfuðborgarsvæðinu þurfi að sækja menntunina út fyrir það því gert er ráð fyrir að skólinn starfi hér eins og fyrir norðan.

Í öðru lagi mætti snúa þeim röksemdum við og segja að með því að hafa núverandi fyrirkomulag þar sem tæknimenntun væri eingöngu byggð upp á höfuðborgarsvæðinu væri verið að hrekja fólk af landsbyggðinni frá námi. Ég er ekki viss um að hv. þm. sé tilbúin að standa við þá fullyrðingu.