Tækniháskóli Íslands

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 21:24:17 (7211)

2002-04-08 21:24:17# 127. lþ. 114.31 fundur 649. mál: #A Tækniháskóli Íslands# frv. 53/2002, SJóh (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[21:24]

Sigríður Jóhannesdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel mig hafa hlustað ákaflega grannt á málflutning hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar og ég gat ekki skilið betur en að hann væri að segja að Tækniskóli Íslands eins og hann væri núna, með aðeins 250 nemendur í tæknigreinum, væri of lítil eining og það bæri ekki að reka hana áfram heldur bæri að sameina þá einingu öðrum háskólum og þar benti hann sérstaklega á Háskólann á Akureyri.

Ég vil ítreka að ég er mjög hlynnt því að Háskólinn á Akureyri verði efldur, ég tala nú ekki um sú tæknimenntun sem hann býður upp á þannig að nemendur utan af landi geti átt þar innhlaup. En ég tel að það væri mjög rangt af okkur í þeirri stöðu sem við erum í í dag að leggja niður Tækniskólann í Reykjavík. Tvímælalaust eigum við að efla hann. Við eigum að setja honum skýr og aðgengileg lög og við eigum að efla hann þannig að þær tæknideildir sem núna hafa um 250 manns verði mun fjölmennari.

Ég er hins vegar sammála hv. þm. í því sem hann talaði um varðandi gjaldtöku og vil taka það fram að gjaldtaka í tækninámi, eins og fyrirhuguð var þegar verið var að tala um að gera skólann að einkaskóla, mun ekki draga fólk að frekari tækninámi en stundað er hér í dag.