Tækniháskóli Íslands

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 21:28:16 (7213)

2002-04-08 21:28:16# 127. lþ. 114.31 fundur 649. mál: #A Tækniháskóli Íslands# frv. 53/2002, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[21:28]

Jón Bjarnason (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sem jafnframt er formaður þingflokks Framsfl. kom með afar athyglisvert innlegg inn í umræðuna.

Ég vil í andsvari mínu víkja fyrst að fjárhagshliðunum og vil inna hv. þm. eftir því hvaða umfjöllun fjármál Tækniskólans hafa fengið hjá þingflokki Framsfl. Hér kemur fram að skuldir skólans eru nú þegar um 180 millj. kr. eða voru við síðustu áramót og ekki líkur til að þær hafi minnkað. Þetta var að vísu ljóst við fjárlagagerð síðast og samt ástæða til að hækka gjöld á nemendum skólans en fjárhagur hans er áfram mjög erfiður.

Hefur þingflokkurinn rætt þessa fjárhagsstöðu í tengslum við frv.? Ég get ekki séð í umsögn fjmrn. annað en að honum sé ætlað að verða að háskóla án þess að fá til þess aukið fé, samanber það sem þar stendur:

,,Kostnaði vegna hærri meðallauna`` --- við að breytast í háskóla --- ,,þarf skólinn að mæta með lækkun kostnaðar á öðrum sviðum að óbreyttum reglum um framlög til kennslu í háskólum.``

Ekki er gefið undir fótinn að hækka eigi framlög til skólans heldur eigi hann að taka innan úr sér þá breytingu, en áfram er hann með mikinn halla. Það er fráleitt að ætla að afgreiða lög um tækniháskóla og láta hann svo jafnframt sitja uppi með kannski á þriðja hundrað milljón króna halla.

Auk þess vil ég líka spyrja hv. þm. hvort hann sakni þess ekki að í frv. stendur hvergi hver ber í rauninni fjárhagslega ábyrgð á skólanum. Hvergi stendur að hann sé formlegur ríkisháskóli eða hver beri fjárhagslega ábyrgð á honum. Eina sem stendur um fjármál að því er ég hef séð er um gjaldtöku vegna ýmissar þjónustu eins og hv. þm. kom inn á, en það stendur hvergi í frv., svo ég sjái, hver beri fjárhagslega ábyrgð á skólanum.