Tækniháskóli Íslands

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 21:31:43 (7215)

2002-04-08 21:31:43# 127. lþ. 114.31 fundur 649. mál: #A Tækniháskóli Íslands# frv. 53/2002, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[21:31]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að ítreka aftur spurningu mína. Í umfjöllun um frv. til laga um Tækniháskóla Íslands hljóta menn að líta til þess fjárhags og fjárhagsramma sem hann annars vegar býr við nú og hins vegar þarf að búa við áfram ekki síður þegar hann er orðinn að háskóla. Mér finnst dapurleg meðhöndlun á fjármálunum að hvergi eru neinir tilburðir til eða ýjað að því að bæta eigi eða rétta fjárhag hans heldur eru einungis setningar um að hann verði að taka aukinn kostnað við breytinguna í háskóla innan úr sér, þ.e. með hagræðingu innan skólans sjálfs.

Herra forseti. Ég ítreka að það hefur lítið upp á sig að samþykkja lög um að breyta þessum skóla í tækniháskóla ef honum verður áfram gert að dragnast með þennan halla frá fyrri árum. Ríkisvaldið kreppir að námi og skólum í landinu og það speglast í þessum skóla.

Ég inni hv. þm. Kristin H. Gunnarsson ítrekað eftir þessu: Er ásættanlegt að hans mati að fjalla hér um frv. um stöðu skólans án þess að því fylgi úrbætur í fjármálum því annars hefur litla þýðingu að breyta þessum skóla? Það skiptir engu máli hvort hér er um stóran eða lítinn skóla að ræða. Hann þarf sitt fjármagn til þess að geta starfað.

Þarna skortir verulega á. Ég óska svara frá hv. þm. sem ég veit að er annt um að hægt sé að reka skóla en þeir ekki fjársveltir eins og við nú búum við.