Tækniháskóli Íslands

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 22:09:42 (7223)

2002-04-08 22:09:42# 127. lþ. 114.31 fundur 649. mál: #A Tækniháskóli Íslands# frv. 53/2002, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[22:09]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég er alveg sammála hæstv. menntmrh. um að stofnanir eigi að sjálfsögðu að halda sig innan fjárheimilda --- það á að vera grunnregla --- enda sé þannig búið að þeim fjárhagslega að þær geti staðið undir þeim og við þau skilyrði og þær skuldbindingar sem þær eiga að taka að sér og sinna.

Ég er líka sammála hæstv. ráðherra um mikilvægi sjálfstæðis ríkisstofnunar eins og þessarar því að á grundvelli sjálfstæðis síns og sjálfstæðrar stöðu getur hún tekið upp samninga við aðrar stofnanir og styrkt sig.

En ég leyfi mér að spyrja, virðulegi forseti: Er virkilega ætlun hæstv. ráðherra að láta skólann fara inn í háskólaumhverfið að óbreyttu reiknilíkani og að óbreyttum áætlunum um fjármagn og fjárþörf frá núverandi stöðu? Nú þegar er vitað að reiknilíkanið sem hefur verið beitt á framhaldsskólana hingað til og tækniskólana hefur verið mjög refsandi og íþyngjandi tækninámi.