Tækniháskóli Íslands

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 22:16:35 (7229)

2002-04-08 22:16:35# 127. lþ. 114.31 fundur 649. mál: #A Tækniháskóli Íslands# frv. 53/2002, EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[22:16]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna orðum hæstv. ráðherra um að af hálfu hans sé fullur vilji varðandi það að þessum metnaði sé mætt eins og kostur er.

Þá tel ég rétt að minnast örlítið á eitt atriði enn. Það varðar það sem hreyft var örlítið um aðdragandann að stofnun skólans og þær hugmyndir sem verið hafa uppi, m.a. um tengslin við Háskólann á Akureyri og verkfræðideildina í Háskóla Íslands. Fyrirrennari ráðherrans hefur aðallega haft með þessi mál að gera undanfarin ár og kannski er eðlilegt að hæstv. ráðherra, sem setið hefur stutt á stóli, hafi þar af leiðandi ekki fullnægjandi upplýsingar um hversu nákvæmlega var skoðað að t.d. hluti skólans hefði farið í enn nánara samstarf við Háskólann á Akureyri og/eða hluti af verkfræðideildinni færi í Tækniháskólann til að styrkja hann enn frekar. Ég er að velta þessu fyrir mér vegna þess að við höfum talað fyrst og fremst um tæknihluta skólans en það er ljóst að það er líka töluvert rekstrarnám í skólanum sem einnig er stundað í Háskólanum á Akureyri, og enn fremur er heilbrigðissvið í skólanum sem er jafnframt nokkuð öflugt í Háskólanum á Akureyri.