Alþjóðleg viðskiptafélög

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 22:25:20 (7232)

2002-04-08 22:25:20# 127. lþ. 114.34 fundur 668. mál: #A alþjóðleg viðskiptafélög# (bókhald í erlendum gjaldeyri) frv. 79/2002, viðskrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[22:25]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum nr. 31/1999, um alþjóðleg viðskiptafélög. Frv. er 668. mál og er að finna á þskj. 1084.

Fyrir Alþingi liggur frv. til laga um breytingu á lögum um bókhald og lögum um ársreikninga þar sem m.a. er lagt til að félögum sem kveðið er á um í 1. mgr. 1. gr. laga um ársreikninga, en það eru einkum félög með takmarkaðri ábyrgð eigenda sem uppfylla tiltekin skilyrði um vægi viðkomandi gjaldmiðils í starfsemi sinni, verði heimilað að færa bókhald og semja ársreikninga í erlendum gjaldmiðli. Í athugasemdum með því frv. sem og í framsöguræðu fjmrh. er gerð grein fyrir efni þess frv. Ætla ég ekki að tíunda það nánar hér.

Frv. það sem ég mæli fyrir gerir ráð fyrir að alþjóðlegum viðskiptafélögum verði heimilt með sama hætti og öðrum félögum að færa bókhald sitt og semja ársreikning í erlendum gjaldmiðli enda fer starfsemi alþjóðlegra viðskiptafélaga að langmestu leyti fram á erlendri grundu. Ástæða þess að nauðsynlegt er talið að breyta ákvæðum 13. gr. laga um alþjóðleg viðskiptafélög hvað þetta efni varðar er sú að greinin eins og hún stendur í dag gerir ráð fyrir að fjmrh. en ekki ársreikningaskrá veiti heimild til að færa bókhald í hinum erlenda gjaldmiðli. Verði frv. að lögum á að tryggja samræmi á milli laga um alþjóðleg viðskiptafélög annars vegar og laga um bókhald og ársreikninga hins vegar að því er varðar heimildir alþjóðlegra viðskiptafélaga til þess að færa bókhald sitt og semja ársreikninga í erlendum gjaldmiðli.

Virðulegi forseti. Ég tel ekki ástæðu til að fjalla frekar um frv. á þessu stigi og geri tillögu um að því verði vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.