Dagskrá fundarins

Þriðjudaginn 09. apríl 2002, kl. 10:37:39 (7239)

2002-04-09 10:37:39# 127. lþ. 115.91 fundur 488#B dagskrá fundarins# (aths. um störf þingsins), BH
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[10:37]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Ég vil taka undir mótmæli um vinnulagið á Alþingi á síðustu dögum þingsins. Hér birtast stór mál frá hæstv. ríkisstjórn þegar einungis nokkrir dagar eru eftir af þingstörfunum, eins og t.d. frv. sem hér hefur verið nefnt, um Þjóðhagsstofnun, sem ansi lengi hefur staðið til að leggja niður. Eða var það ekki á haustdögum sem hæstv. forsrh. lýsti því yfir að til stæði að leggja stofnunina niður? Maður hlýtur því að spyrja, herra forseti: Hvað tafði? Hvað veldur því að þetta frv. þarf að koma fram á síðustu dögum þingsins og stefna þingstörfunum í algert uppnám?

Á sama tíma bíður í hv. utanrmn. þingsins tillaga samfylkingarmanna um sjálfstæði Palestínu, sem mér skilst að vinnist ekki tími til að taka fyrir í hv. utanrmn. Við höfum margsinnis mótmælt því.

Herra forseti. Þetta er algerlega ólíðandi ástand, sem við búum við. Ég mótmæli þessu vinnulagi. Hæstv. ríkisstjórn á að virða þær vinnureglur sem þingsköp setja henni nema sérstakar aðstæður hamli. Við hljótum því að spyrja, herra forseti: Hvaða aðstæður valda því að ekki var hægt að leggja þetta frv. fram fyrr en á síðustu dögum þingsins?