Dagskrá fundarins

Þriðjudaginn 09. apríl 2002, kl. 10:43:28 (7242)

2002-04-09 10:43:28# 127. lþ. 115.91 fundur 488#B dagskrá fundarins# (aths. um störf þingsins), SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[10:43]

Sigríður A. Þórðardóttir:

Herra forseti. Það á ekki að koma neinum á óvart þó að þetta mál um Þjóðhagsstofnun sé komið fram. Það er auðvitað ljóst að það hefur fengið langan og vandaðan undirbúning. Stjórnarflokkarnir leggja áherslu á að þetta mál komist á dagskrá í dag. Við ætlum að ljúka því í vor.

Það er líka alveg ljóst, af því sem menn hafa sagt hér í dag, að þingmenn vilja ræða þessi mál, jafnt stjórnarandstaða sem stjórnarliðar. Það hlýtur þá auðvitað að vera ljóst að stjórnarandstaðan á að geta komið fram með brtt. við þetta mál. Það hefur einnig komið fram af hálfu forseta að það eru ekki fordæmi fyrir því að ræða samtímis mál frá stjórn og stjórnarandstöðu, jafnvel þó að um skyld málefni sé að ræða.

Síðan vil ég að gefnu tilefni, vegna þess að inn í þessa umræðu var dregin umfjöllun um þáltill. Samfylkingarinnar um málefni Palestínu og sérstaklega nefnt að hún fengist ekki rædd í utanrmn., vísa því algerlega til föðurhúsanna sem staðlausum stöfum. Það eru fjórir þingdagar síðan þessari tillögu var vísað til utanrmn. Það hefur ekki verið reglulegur fundur í nefndinni eða fundatími fram til þessa. En hún verður að sjálfsögðu rædd þegar nefndin kemur saman.