Dagskrá fundarins

Þriðjudaginn 09. apríl 2002, kl. 10:45:13 (7243)

2002-04-09 10:45:13# 127. lþ. 115.91 fundur 488#B dagskrá fundarins# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[10:45]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hv. þm. Vilhjálmur Egilsson er einstakur snillingur í að standa á haus í umræðum hér. Það sést best þegar hann heldur því fram að vinnubrögð ríkisstjórnarinnar varðandi undirbúing þessa frv. um Þjóðhagsstofnun séu vönduð og það sé sérstakur gæðastimpill hvað hrossakaupin hafi tekið langan tíma. En það liggur fyrir að það er ekki fyrr en fyrir nokkrum vikum að Framsókn gafst endanlega upp í málinu eftir að hafa verið á móti því að gera það sem Sjálfstfl. hefur núna beygt hann undir að gera.

Tillaga okkar mælir hins vegar fyrir um vandaða vinnu með fulltrúum allra þingflokka og starfsmanna þar sem skoðað verði hvernig þessum verkum verði best fyrir komið og sá kostur skoðaður að efla Þjóðhagsstofnun í skjóli Alþingis sem sjálfstæða og óháða fagstofnun á þessu sviði. Það er auðvitað að bíta höfuðið af skömminni að þá stofnun, sem sýnt hefur vissa sjálfstæðistilburði og leyft sér að gagnrýna m.a. hagstjórn í landinu á undanförnum árum, skuli nú eiga að leggja niður, færa verkefnin undir hið pólitíska vald í fjmrn. og að einhverju leyti inn Seðlabankann.

Ég spyr síðan í öðru lagi, herra forseti: Er það viljandi sem forseti efnir hér til illinda með því að hafa ekki þáltill. okkar á dagskránni? Hefði verið allur munur á því þótt hér væru 58 mál á dagskrá fundarins í staðinn fyrir 57? Það er allt og sumt sem hér er verið að ræða, að tillaga stjórnarandstöðunnar fái að vera á dagskrá sama fundar. Málin ættu þá auðvitað að vera hlið við hlið. Ég veit ekki hvað vakir fyrir forseta með að standa svona að málum nema hann sé að sýna vald sitt.

Staðreyndin er sú, herra forseti, að það er fyrst og fremst hæstv. forsrh. sem hefur verið óánægður með störf Þjóðhagsstofnunar. Þess vegna á að refsa henni með því að leggja hana niður. Þetta er gert án nokkurs samráðs við starfsfólk. Það liggur núna fyrir. Það að tala um vönduð vinnubrögð kemur því úr hörðustu átt, herra forseti.