Dagskrá fundarins

Þriðjudaginn 09. apríl 2002, kl. 10:49:51 (7245)

2002-04-09 10:49:51# 127. lþ. 115.91 fundur 488#B dagskrá fundarins# (aths. um störf þingsins), VE
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[10:49]

Vilhjálmur Egilsson:

Virðulegi forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur mikinn áhuga á í hvaða stellingum ég er hér í ræðustól. Ég vona að ég geti staðið í lappirnar hér eftir sem hingað til. Það er kannski spurning um það, þegar við hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon erum saman í fótbolta, hvaða stellingum við verðum í en staðan er ekki þannig núna.

Ég vil bara mótmæla því sem hv. þm. sagði, að það hafi ekki verið rætt við starfsmenn Þjóðhagsstofnunar. Vissulega var rætt við þá og þeim hefur verið fullkunnugt um hvað til hefur staðið. Þeir tóku þátt í undirbúningi málsins. Það hefur hins vegar komið fram að starfsmenn stofnunarinnar voru ekki sammála. Það er ekki hið sama, hvort þeir eru ekki sammála eða hvort ekki hefur verið við þá talað.

Þegar verið er að breyta stofnunum með þessum hætti borgar sig fyrir alla aðila að ákvarðanir séu teknar fljótt og þeim hrint í framkvæmd. Það versta sem fyrir getur komið í starfi einnar stofnunar er ef lengi er verið að velkjast með málið eftir að búið er að taka ákvörðun um hvernig halda eigi á þeim. Ég held þess vegna að það sé öllum fyrir bestu, líka starfsfólki, að það sé gengið það. (Gripið fram í.) Það er búið að taka ákvörðun um það í ríkisstjórninni að leggja þetta til. (SJS: Já, en þingið ræður þessu.) Það liggur hér frv. fyrir þinginu og liggur fyrir að þingflokkar stjórnarflokkanna hafa samþykkt þetta frv. Það liggur fyrir að það er meiri hluti í þinginu fyrir að breyta þessu.

Hins vegar er einnig ljóst það er vilji til að hlusta á það sem hv. þm. hefur um málið að segja, eins og alltaf er, og vonandi að hv. þm. fari að segja eitthvað af viti um þetta mál.