Afbrigði

Þriðjudaginn 09. apríl 2002, kl. 10:57:34 (7246)

2002-04-09 10:57:34# 127. lþ. 115.94 fundur 491#B afbrigði# (afbrigði við dagskrá), SJS (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[10:57]

Steingrímur J. Sigfússon (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ef minni mitt svíkur ekki þarf líka að leita afbrigða því að þessu máli var ekki útbýtt fyrr en í gær. Þannig þarf tvöföld afbrigði til að þetta mál fái að koma á dagskrá. Ég óska alla vega eftir því að verða upplýstur um það ef svo er ekki. Hitt er þó víst að þetta mál er ekki einu sinni komið á borð þingmanna í prentaðri útgáfu heldur er það hér ljósritað.

Ég tel að eins og hæstv. ríkisstjórn hefur staðið að verki í öllu þessu máli og forseti eða forusta þingsins stendur hér að málum, að hafa að engu óskir þingflokks um að náskylt þingmál fái svo mikið sem vera á dagskrá fundarins, séu engin efni til þess að við förum að greiða götu þessa máls inn á dagskrá fundarins, hvorki hvað varðar frestinn 1. apríl, látum það þó vera, né að fara að taka málið á dagskrá með forgangshraði innan við sólarhring eftir að því var dreift.

Vinnubrögðin öll í sambandi við þetta mál eru líka þannig að ekkert mælir með því að það fái einhverja flýtimeðferð. Málið er mjög umdeilt og ríkisstjórnin og forusta þingsins sýnir að mínu mati mikinn þjösnaskap með því að ætla að troða því, eins og allt er í pottinn búið, fremst á dagskrá þessa fundar.

Ég leyfi mér að inna hæstv. forseta eftir því hvenær kemur að því að forseti fari að kalla til funda um hvernig eiginlega eigi að haga þinghaldinu þá örfáu daga sem eftir eru. Það vottar ekki fyrir því að nokkurt skipulag sé í gangi. Það vottar ekki fyrir því að það beri á neinni forgangsröðun ríkisstjórnarinnar. Hér sólarhringum eytt í óþörf ágreiningsmál á sama tíma og ýmis önnur viðfangsefni sem við vitum að þurfa að ná afgreiðslu, eins og endurskoðun vegáætlunar fyrir sumarið sem í hönd fer, eru ekki tekin á dagskrá. Það mætti ætla að forseti hefði hugsað sér að halda þing samfellt fram að hundadögum, miðað við það hvernig staðið er að málum.

Allt, herra forseti, ber þetta að sama brunni. Ekki er reynt að ná samkomulagi við stjórnarandstöðuna um nokkurn skapaðan hlut heldur mætti ætla að það væri markmið í sjálfu sér að hafa hér illindi um hlutina, jafnvel um svo einfaldan þátt og að fá mál á dagskrá þegar eftir því er óskað. Ég mun því greiða atkvæði gegn því að þetta mál komi á dagskrá með afbrigðum og bið um staðfestingu á þeim skilningi mínum að aukinn meiri hluta þurfi til ef málið á að koma fyrir, vegna þess að jafnframt þarf að leita afbrigða vegna þess að frv. var dreift í gær.