Afbrigði

Þriðjudaginn 09. apríl 2002, kl. 11:08:47 (7253)

2002-04-09 11:08:47# 127. lþ. 115.94 fundur 491#B afbrigði# (afbrigði við dagskrá), SJS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[11:08]

Steingrímur J. Sigfússon (um fundarstjórn):

Herra forseti. Mér finnst vera svo alvarlegt mál á ferð þegar forseti breytir þeirri túlkun þingskapa sem áður hefur verið uppi höfð, og því er ekki mótmælt hér að í mjög afdrifaríkum og stórum málum, eins og lagasetningunni á sjómenn fyrir skömmu, var gagnstæð túlkun staðfest í verki. Með þá niðurstöðu var meiri hlutinn, forsrh. og forseti þingsins, efalaust ákaflega óánægðir en hlíttu samt að stjórnarandstaðan hefði það vald að tryggja að farið væri að þessum frestum. Ég held að þessi túlkun hafi verið þannig að öll ákvæðin um fresti hafi verið meðhöndluð með sama hætti nema það eitt sem lýtur að framlagningu þingmála eftir 1. apríl en þar er tekið fram með pósitífum hætti að einfaldur meiri hluti dugi. Er þá ekki óhjákvæmilegt, herra forseti, að gagnálykta af því að um alla aðra fresti gildi hið almenna ákvæði 90. gr. um að tvo þriðju meiri hluta þurfi til að víkja frá þeim eins og öðrum ákvæðum þingskapa? Ég tel þetta var algeran bláþráð sem hæstv. forseti reynir að spinna hér með því að vísa til þess að í 36. gr. er verið að tala um samþykki þingsins. Það er miklu eðlilegra að líta svo á að það vísi til tveggja þriðju meiri hluta samþykkis vegna þess að allir frestir aðrir en þessi eini sem með pósitífum hætti er tengdur við einfaldan meiri hluta hafa verið meðhöndlaðir þannig.

Ef hæstv. forseti ætlar að standa við þennan úrskurð sinn óska ég eftir að hann geri hlé á fundinum og gefi formönnum þingflokka færi á að ræða við sig því að hér er um graf\-alvarlegan atburð, herra forseti, að ræða í þingsögunni. Það er alveg ljóst að þessir frestir og þessi ákvæði þingskapanna eru ætluð til að tryggja ákveðna málsmeðferð. Þau tryggja minni hluta á hverjum tíma ákveðin réttindi. Þetta eru ákveðnir öryggishemlar sem menn hafa í höndum sínum til að ekki sé hægt að setja færibandið á margfaldan hraða. Það væri svo sem eftir öðru að sú viðleitni væri uppi af hálfu meiri hlutans eða ríkisstjórnarinnar að setja færibandið á fulla ferð til að rúlla þessu Þjóðhagsstofnunarmáli í gegn en svo léttúðugir mega menn ekki vera, herra forseti, að þeir gefi sér ekki einu sinni tíma til að skoða málin og ræða saman. Ég ítreka því eindregnar óskir mínar um að forseti geri hlé á þessum fundi svo að færi gefist á fundahöldum og menn fái örlítið tóm til að skoða málið.