Afbrigði

Þriðjudaginn 09. apríl 2002, kl. 11:12:58 (7255)

2002-04-09 11:12:58# 127. lþ. 115.94 fundur 491#B afbrigði# (afbrigði við dagskrá), KLM (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[11:12]

Kristján L. Möller (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég er sífellt að læra á þingsköp, hef ekki langa þingreynslu en sá hæstv. forseti sem situr í forsetastóli hefur mikla þingreynslu. Ég sé það hins vegar á þingsköpunum sem okkur var gert að lesa þegar við komum til þings að hér er forseti þingsins að vaða reyk, það er ljóst. Í 36. gr. segir, með leyfi forseta:

,,Eigi má, nema með samþykki þingsins, taka frumvarp til umræðu fyrr en liðnar eru að minnsta kosti tvær nætur frá því er því var útbýtt.``

Síðan fjallar 90. gr. um tvo þriðju hluta atkvæða. Í mínum huga er það alveg ljóst að til að taka þetta mál á dagskrá þingsins núna þarf tvo þriðju atkvæða. Hins vegar, herra forseti, í næstu atkvæðagreiðslu sem fjallar um það að lagafrv. sem útbýtt er sex mánuðum eftir þingsetningu verða þau því aðeins tekin á dagskrá að meiri hluti þingmanna samþykki það.

Herra forseti. Mér finnst þetta alveg ljóst og ég hvet hæstv. forseta til að gera hlé á fundi þingsins og lesa þetta í ró og næði. Í mínum huga er alveg skýrt hvernig á að fara með þetta mál.