Afbrigði

Þriðjudaginn 09. apríl 2002, kl. 11:18:07 (7260)

2002-04-09 11:18:07# 127. lþ. 115.94 fundur 491#B afbrigði# (afbrigði við dagskrá), BH (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[11:18]

Bryndís Hlöðversdóttir (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það fer að verða vandlifað á hinu háa Alþingi ef við þingmenn getum ekki verið vissir um það frá degi til dags hvernig ákveðnar greinar þingskapanna eru túlkaðar. Það liggja fyrir því fordæmi, herra forseti, a.m.k. í forsetatíð þess forseta sem hér situr, að þetta ákvæði hafi verið túlkað á tiltekinn hátt. Fyrir því hafa menn nefnt hér fordæmi, a.m.k. um frv. um stjórn fiskveiða og mér skilst að menn séu að ræða sín á milli um fleiri fordæmi. Hæstv. forseti hlýtur að þurfa að gera upp við sig á hvern hátt hann ætlar að túlka þessa grein þannig að við vitum til frambúðar hvernig ber að túlka hana.

Það stendur, herra forseti, í 36. gr. að eigi megi nema með samþykki þingsins taka frv. til umræðu. Það eru a.m.k. fordæmi fyrir því að þessi orð, ,,með samþykki þingsins``, hafi verið túlkuð þannig að það eigi við um 90. gr. vegna þess að það sé ekki verið að vísa til einfalds meiri hluta eins og gert er í 2. mgr. 36. gr.

Herra forseti. Það verður ekki sátt um þá túlkun sem hæstv. forseti hefur lagt til hér, sérstaklega á grundvelli þess að hann hefur túlkað þetta á annan veg fyrir ekki svo löngu síðan. Þess vegna hljótum við að krefjast þess að forseti geri hlé, reyni þá að sætta sjónarmið manna í þessu máli og sýni þeim fram á það með óyggjandi hætti að þessi túlkun sé rétt og hún muni þá vera til frambúðar en ekki verði gripið til hinnar þegar það hentar.