Afbrigði

Þriðjudaginn 09. apríl 2002, kl. 11:23:22 (7264)

2002-04-09 11:23:22# 127. lþ. 115.94 fundur 491#B afbrigði# (afbrigði við dagskrá), GuðjG (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[11:23]

Guðjón Guðmundsson (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er kominn hefðbundinn vorfiðringur í stjórnarandstöðuna. Hér eru 57 mál á dagskrá og menn virðast ætla að ræða til hádegis um störf þingsins, um fundarstjórn forseta, úrskurð forseta, um þingsköp o.fl. --- allt til að koma í veg fyrir að eitt tiltekið mál komist á dagskrá. Við þekkjum þetta sem höfum setið hér lengi ... (Gripið fram í: Þetta er ómálefnalegt.) Gott væri ef hv. þingmenn Vinstri grænna gætu setið á sér. Þeir geta kannski fengið orðið þegar ég er búinn ef þeim sýnist svo. Þeir hafa talað talsvert um þetta mál.

Þetta er bara árvisst hérna. Alltaf þegar líður að þinglokum á vorin byrjar þetta ströggl. Það er farið að ræða fundarstjórn forseta, störf þingsins og þetta og hitt og einhver tafafiðringur í mönnum. Ég skil þetta ekki alveg.

Ég bið hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar að snúa sér að því að ræða þau fjölmörgu mál sem hér eru á dagskrá, hætta þessu ströggli og virða úrskurð forseta og stjórn hans á þinginu. Hann kann þetta öðrum mönnum betur. Við getum alveg treyst úrskurðum hans. (SJS: Við viljum að farið sé að lögum.)