Afbrigði

Þriðjudaginn 09. apríl 2002, kl. 11:24:28 (7265)

2002-04-09 11:24:28# 127. lþ. 115.94 fundur 491#B afbrigði# (afbrigði við dagskrá), LB (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[11:24]

Lúðvík Bergvinsson (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þau sjónarmið sem hér hafa komið fram. Það er lágmarkskrafa þegar breytt er frá ákvörðunum sem hafa gefið fordæmi, að hæstv. forseti rökstyðji það. Það er grundvallaratriði að hann rökstyðji hvers vegna breytt hefur verið frá fordæmunum. Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að þeir sem áður hafa setið á forsetastóli hafa allir verið vel læsir og hafa vel getað lesið það ákvæði sem hæstv. forseti hefur lesið upp í þrí- eða fjórgang á þessum fundi. Þetta ákvæði hefur verið túlkað með ákveðnum hætti. Það hefur verið túlkað þannig að það þurfi samþykki tveggja þriðju hluta þingsins. Eigi að breyta því er lágmarkskurteisi af hæstv. forseta að rökstyðja það.

Ég vil líka mótmæla því að hér sé um hefðbundið nöldur stjórnarandstöðunnar að ræða. Þingsköpin kveða m.a. á um rétt minni hlutans á þessu þingi. Þetta er ekki einungis þannig að meiri hlutinn geti troðið öllu ofan í kokið á minni hlutanum hvenær sem honum sýnist.

Það sem hér er að gerast er ekkert annað en geðþótta- og tilviljanakennd valdbeiting, ekkert annað. Hæstv. forseti hefur í engu rökstutt þá niðurstöðu sem hann hefur hér komist að að undanskildu því að hann hefur lesið upp ákvæði sem margoft hefur verið túlkað áður. Síðan ég kom á þing fyrir sjö árum hefur það ætíð verið túlkað þannig, þegar kemur að þessum ákvörðunum, að samþykki tveggja þriðju hluta þurfi í tilvikum sem þessu. Ég bara bið hæstv. forseta að hugleiða hvers konar stjórn það er á fundinum, hvers konar bragur það er á þinginu ef hæstv. forseti breytir með geðþóttaákvörðunum út frá fordæmum án þess svo mikið sem gerast svo stór að rökstyðja þær breytingar, þ.e. hvers vegna breytt er út frá fyrri fordæmum.