Afbrigði

Þriðjudaginn 09. apríl 2002, kl. 11:29:13 (7268)

2002-04-09 11:29:13# 127. lþ. 115.94 fundur 491#B afbrigði# (afbrigði við dagskrá), landbrh. (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[11:29]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég sat hér lengi í forsetastól og reyndi að skilja þessi þingsköp. Ég efast ekki um að lestrarkunnáttan er söm hjá þingmönnum, og þar feilar þeim ekki, en skilningurinn er misjafn. Þannig stendur málið.

En þegar ég skoða þingsköpin þá fjalla 89 greinar þingskapanna eftir skýrum lögum um hvernig við störfum hér. 90. gr. fjallar um ef eitthvað kemur upp afbrigðilegt. Mér finnst þetta alveg ljóst hér þegar ég les, bæði samkvæmt lestrarkunnáttu minni og skilningi. Í 36. gr. segir um þetta mál, sem er komið fram eftir sex mánaða frestinn --- það eru sex mánuðir liðnir af þinghaldinu --- að fara þurfi með það sérstaklega þess vegna. Minn skilningur er alveg ljós þegar ég les 36. gr. með leyfi forseta:

,,Lagafrumvörp, sem útbýtt er sex mánuðum eftir þingsetningu, verða því aðeins tekin á dagskrá að meiri hluti þingmanna samþykki það.`` (SJS: Um það er ekki deilt.) Um hvað er þá ágreiningurinn? (Gripið fram í: Fyrri málsgreinina.) Mér finnst hún auðskilin líka.

,,Lagafrumvörp skulu vera samin með lagasniði og skal prenta þau og útbýta þeim meðal þingmanna á fundi.`` (SJS: Þetta er ljósritað.) ,,Hverju frumvarpi skal fylgja greinargerð um tilgang þess yfirleitt og skýring á höfuðákvæðum. Eigi má, nema með samþykki þingsins, taka frumvarp til umræðu fyrr en liðnar eru að minnsta kosti tvær nætur frá því er því var útbýtt.`` (Gripið fram í: Tvær nætur.) Tvær nætur. Við greiðum atkvæði um það. Það er einfaldur meiri hluti sem ræður. (GE: Nú er verið að bregða af þeim vana.) Þetta er alveg skýrt inni í þingsköpunum, hvernig á að fjalla um en ef eitthvað óvænt gerist á þingfundi af hálfu forseta, hann tekur ákvörðun sem stangast á við þingsköp, getur þingið greitt atkvæði um það samkvæmt 90. gr. Þetta er augljóst mál. (Gripið fram í.) Þetta er einhver morgunþrjóska hér í hv. þingmönnum. (Gripið fram í.) Ég sé að lestrarkunnáttan er betri en mín en skilningurinn er verri þannig að ég vil biðja hv. þingmenn að bæta skilninginn.