Húsnæðismál

Þriðjudaginn 09. apríl 2002, kl. 12:19:07 (7278)

2002-04-09 12:19:07# 127. lþ. 115.13 fundur 710. mál: #A húsnæðismál# (félagslegar íbúðir) frv. 86/2002, félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[12:19]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Ekki má líta svo á að eingöngu sé verið að koma til móts við sveitarfélög vegna auðra íbúða. Það geta verið fleiri erfiðleikar við að reka hið félagslega kerfi í einstökum sveitarfélögum.

Í árbók sveitarfélaga er á hverju ári ágæt skilagrein yfir rekstur ásamt með öðrum reikningum viðkomandi sveitarfélags. Þá er gert upp sérstaklega hvernig félagslega kerfið kemur út. Ef menn fletta árbók sveitarfélaga sjá þeir að í æðimörgum tilfellum eru þau gerð upp með tapi. Sums staðar er tapið verulegt, sums staðar minna. Sums staðar er tapið upp á eina eða tvær millj. en sums staðar hefur það hlaupið á tugum millj. Þessi rekstrarframlög eiga líka að geta aðstoðað þau sveitarfélög, ekki bara þau sem eru með auðu íbúðirnar.

Jafnframt er hugsunin sú að með aðstöðu til að selja út úr kerfinu minnkar sá pakki sem sveitarfélagið ber ábyrgð á. Það á líka að létta smám saman á rekstrinum hjá sveitarfélögunum.