Húsnæðismál

Þriðjudaginn 09. apríl 2002, kl. 12:20:39 (7279)

2002-04-09 12:20:39# 127. lþ. 115.13 fundur 710. mál: #A húsnæðismál# (félagslegar íbúðir) frv. 86/2002, SJS
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[12:20]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er sjálfsagt að fagna því þótt seint sé, og lítið, sem hér birtist loksins í frumvarpsformi frá hæstv. ríkisstjórn um að koma til móts við vanda sveitarfélaganna vegna skuldbindinga á sviði félagslegs íbúðarhúsnæðis. Það er auðvitað stórkostlega ámælisvert að þetta mál skuli vera búið að vera svo lengi í vinnslu eins og hæstv. ráðherra sjálfur sagði, réttilega, frá 1998 og nú er komið fram á vordaga ársins 2002. Þá loksins tekur fjallið jóðsótt og þessi litla mús fæðist. Ég verð því miður að leyfa mér að kalla það svo. Þetta er náttúrlega langtum minna, sérstaklega hvað varðar framlag ríkisins, en ég held að allir hefðu átt von á. Það á einhvern tíma eftir að fara yfir það, trúi ég, og reikna hvað ríkið hefur í raun og veru komist upp með að losna frá þessum málum og öllum skuldbindingum sínum í sambandi við félagslegt íbúðarhúsnæði í landinu, velta þeim vanda yfir á einstaklingana og sveitarfélögin og sleppa svo í lokin með hreint skiterí, 60 millj. á ári í fimm ár, 300 millj. í allt, gagnvart vanda sem hefur verið reiknaður upp á 2--3 milljarða hið minnsta, þ.e. sem skuldirnar þyrftu að lækka um til að þetta húsnæði væri eitthvað nálægt því að standa fyrir því sem á því hvílir.

Um efnisatriði frv., herra forseti, vil ég segja að það er að sjálfsögðu ekki gott að t.d. þeir einstaklingar sem núna sitja, að sumu leyti fangar, í félagslegu húsnæði eiga þess ekki lengur kost að færa sig til innan kerfisins eins og áður var, t.d. stækka við sig íbúðir, og það varð auðvitað að taka á því máli. Hvort sem það er gert nákvæmlega svona, með því að aflétta kaupskyldunni og heimila þessu fólki að selja á frjálsum markaði, eða með einhverjum öðrum hætti er að sjálfsögðu ekki hægt annað en taka undir það. Það gat ekki haldið þannig áfram að fólk svo að segja neyddist til að búa í því húsnæði sem það hafði einhvern tíma farið inn í við allt aðrar fjölskylduaðstæður o.s.frv. af því að af hagsmunaástæðum var annað ómögulegt.

Í öðru lagi, herra forseti, fagna ég tilkomu rekstrarframlaga til sveitarfélaga vegna rekstrarhalla á leiguíbúðum og langvarandi auðra íbúða. Það er angi þessa máls sem hingað til hefur alveg skort að á væri tekið, og er auðvitað alveg sérstakur vandi. Ef menn hafa búið við það að annaðhvort væru leigutekjur svo lágar að þær dygðu engan veginn til að standa undir kostnaði eða beinlínis að íbúðir hafa af og til staðið auðar er það að sjálfsögðu hluti vandans sem átti að taka á og hefði þurft að vera búið að gera fyrir löngu.

Aðalatriðið í mínum huga er þó það, herra forseti, að ríkið leggur alveg ótrúlega lítið af mörkum, hvort heldur er mælt í raunverulegum peningum eða --- svo ég tali ekki um --- ef það er sett í samhengi við þær gríðarlegu skuldbindingar sem ríkið bar í kerfinu eins og það var og hefði á ári hverju axlað með áframhaldandi starfrækslu þess. Það er því auðvitað alveg ljóst að með breytingunum 1998 losaði ríkið sig undan alveg gríðarlegum skuldbindingum í þessum málaflokki og sleppur svo í raun og veru út úr þeim án þess að leggja nema pínulítið af mörkum til að gera upp vandann. Og það eru sveitarfélögin eins og stundum áður sem draga styttra stráið.

Það er umhugsunarefni, herra forseti, að þannig er þetta nánast alltaf í þessum samskiptum. Bágstödd sveitarfélögin --- ekki síst einmitt þau sem þessi vandi brennur á --- ganga oftast með skarðan hlut frá borði. Til móts við vandann hér, eins og ég segi, upp á milljarða kr. kemur ríkið með 300 millj., 60 millj. á ári í fimm ár. Á móti falla niður önnur framlög ríkisins, og hvað er það? Ég man ekki betur en í ákvæði til bráðabirgða í lögum um húsnæðismál frá 1998 hafi verið ætlunin að ríkið legði 50 millj. á ári í afskriftasjóð eða varasjóð húsnæðislána. Og ég spyr hæstv. félmrh. að því og bið hann að svara því hér í lok umræðunnar eða þegar hann tekur næst til máls: Hvað hefur ríkið lagt fram af þessu sem þarna stóð til? Er það nema 50 millj. í eitt eða kannski tvö skipti? Og ef þessar 50 millj. greiðslur falla niður, eru það þá 10 millj. í viðbót nettó sem koma út úr samkomulaginu hvað varðar framlög ríkisins? Ég óska eftir svari af því að það verður ekki ráðið af gögnum málsins. Ég gagnrýni það að greinargerð frv. skuli ekki vera skýrari en raun ber vitni. Í raun og veru er maður nær því að átta sig á þessu með því að fara í umfjöllun Morgunblaðsins um málið í dag. Þar er þó a.m.k. dregið skýrt fram að sveitarfélögin sjálf reiða fram 600 millj. af þessum 1.100. Það er þannig. Úr sjóðum sem þeim tilheyra eða í mótframlögum þeirra kemur meiri hlutinn af þessu. Afgangurinn kemur úr Íbúðalánasjóði gegn mótframlögum sveitarfélaganna og svo þetta skiterí frá ríkinu.

Dró hæstv. félmrh. ekki meira en þetta, ekki nema þessa aumu burst úr nefi fjmrh.? Er það þar sem stóri hnefinn er á lofti og ræður ferð? Það er von að spurt sé.

Herra forseti. Mér finnst líka annað umhugsunarefni í þessu sambandi. Ég nefni dæmi: Hvað eru menn að skipta sér af því hvernig sveitarfélögin fyrir sitt leyti halda utan um þessar íbúðir? Hvað er þessi nefnd eða frv. að skipta sér af því að sveitarfélögin skuli stofna eignarhaldsfélög um þetta? Mega þau ekki hafa þetta eins og þeim sýnist? Ég hélt það. Og þetta gætu verið bara venjuleg sveitarfélagaverkefni, sjálfseignarstofnanir eða eitthvað annað ef svo bæri undir. Mér finnst þetta óþarfaforræðishyggja.

Af öðru hef ég verulegar áhyggjur. Á bls. 5 í greinargerð með frv. segir, með leyfi forseta:

,,Nefndin leggur til að sveitarfélög verði aðstoðuð við að selja félagslegar eignar- og leiguíbúðir á almennum markaði í þeim tilvikum þar sem innlausnarverð er yfir markaðsverði íbúðanna. Nefndin leggur til að þetta eigi við um allar félagslegar íbúðir sveitarfélaga, ekki eingöngu eignaríbúðir.``

Hvaða tón er hér verið að slá? Er það orðið að markmiði í sjálfu sér að sveitarfélögin losi sig við allar félagslegar íbúðir, og eigi t.d. eiginlega engar leiguíbúðir? Hvað er verið að fara? Er það virkilega orðið þannig að bæði ríkisvaldið og sveitarfélögin séu að verða sammála um að markaðurinn einn eigi að vera þarna á ferð og það eigi alls ekki að vera með nein úrræði uppi til að mæta þörfum t.d. tekjulágra einstaklinga, námsmanna eða annarra þeirra sem eru á ferðinni og þurfa tímabundið á húsnæði að halda og eru náttúrlega háðastir því að til staðar sé skilvirkur og sanngjarn leigumarkaður? Ég vara við þessari hugsun. Það er alveg ljóst að þessar breytingar hafa, nákvæmlega eins og við spáðum fyrir um 1998, leitt til þess að dregið hefur úr framboði á leiguhúsnæði á hagstæðum og viðráðanlegum kjörum. Í sumum sveitarfélögum landsins ríkir frumskógarástand hvað leigumarkaðinn snertir. Verðið hefur skrúfast upp úr öllu valdi, framboðið er ónógt og fólk hírist í stórum stíl í kytrum sem eru varla mönnum bjóðandi. Við förum aftur á bak en ekki áfram, því miður, að mörgu leyti hvað varðar ástand húsnæðismála hjá tekjulágu fólki og það er dapurlegt í sjálfu góðærinu, herra forseti. Það er mikil ástæða til að hafa áhyggjur af því hvernig ýmislegt hefur þróast í þessum efnum. Helsta ljósið í myrkrinu eru tilraunir til að koma á samstarfi --- fyrir atbeina verkalýðshreyfingarinnar ekki síst --- verkalýðshreyfingar, lífeyrissjóða og stjórnvalda um átak í byggingu leiguíbúða sem er góðra gjalda vert. Mér líkar hins vegar ekki sérstaklega tónninn sem hér er sleginn af hálfu sveitarfélaganna hvað það varðar að það sé eiginlega orðið markmið í sjálfu sér að losa sig við þetta allt saman, herra forseti.

Ég minni að lokum á það að við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs höfum á undanförnum þingum við afgreiðslu fjárlaga, bæði í desember sl. sem og í desember 2000, gott ef ekki strax haustið 1999, lagt til að í fjárlögum væru ríflegar heimildir til handa ríkinu til að ganga til samstarfs við sveitarfélögin um lausn þessara mála. Það er ámælisvert hversu lengi það hefur dregist. Á hverju einasta ári sem liðið er síðan þetta mál var á dagskrá, 1998, hefur fjárhagsstaða sveitarfélaganna versnað. Hún hefur gert það, herra forseti, hvað sem menn segja um skuldir eða annað því um líkt. Það sést best á því að marktækasta kennitalan út úr rekstri þeirra, það hversu hátt hlutfall skatttekna fer beint í rekstur, hækkar á hverju einasta ári. Hún fór á fimm ára tímabili, frá 1996/1997 upp í 2000/2001, úr 77% í 83% og núna er það algengt þegar maður ræðir við forsvarsmenn sveitarfélaga að samkvæmt fjárhagsáætlun fyrir árið 2002 sé þessi tala í kringum 90%. Um 9/10 af heildartekjum sveitarfélaganna fara beint í rekstur og þá sjá allir menn að það er lítið eftir til allra annarra hluta, til fjárfestinga, til að greiða niður skuldir o.s.frv.

[12:30]

Herra forseti. Inn í þetta samhengi verður að taka þessar, mér liggur við að segja, nánasarlegu 60 millj. kr. á ári í fimm ár sem ríkisvaldið af rausn sinni ætlar að leggja af mörkum til þess að taka á þessum vanda hjá bágstöddum sveitarfélögum í landinu. Það er ekki rausnarbragur yfir þessu. Það er ekki eins og góðbóndi og höfðingi séu á ferð sem hafi gaman af því að veita vel á sínu búi þegar hæstv. félmrh. kemur hér með þetta skiterí inn í dæmið. En kannski ættum við að hafa líka við umræðuna hæstv. fjmrh. og banka pínulítið í kollinn á honum hvað það varðar að þar hafi verið staðið á bremsunum með þessum hætti. En það er alveg ljóst í öllu falli, herra forseti, að í óefni stefnir um fjárhag og rekstur sveitarfélaganna og hér er gengið allt of skammt til þess að koma til móts við þau.