Húsnæðismál

Þriðjudaginn 09. apríl 2002, kl. 13:40:32 (7281)

2002-04-09 13:40:32# 127. lþ. 115.13 fundur 710. mál: #A húsnæðismál# (félagslegar íbúðir) frv. 86/2002, RG
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[13:40]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem við sem við ræðum húsnæðismál í þessum sal. Það hefur gerst undir mismunandi formerkjum. Þegar ég kem í ræðustól í dag bærast með mér mjög blendnar tilfinningar. Ég finn til stolts og ég finn til hryggðar. Ég finn til stolts þegar ég hugsa um að flokkurinn minn, flokkur jafnaðarmanna, gerði sér grein fyrir því á sínum tíma, fyrir um 70 árum, hversu mikilvægt væri að koma á húsnæðislöggjöf sem gerði efnalitlu fólki kleift að eignast þak yfir höfuðið.

Það voru jafnaðarmenn sem ákváðu á sínum tíma að setja á oddinn í stjórnarsamstarfi að byggðar yrðu félagslegar íbúðir og lög sett þar um þannig að útrýmt yrði saggakjöllurum og heilsuspillandi húsnæði þar sem barnmargar fjölskyldur höfðust við og að það væri þýðingarmesta velferðarmálið að gera fólki kleift að búa sómasamlega. Það var stærsta fjölskyldumálið að gera börnum kleift að vaxa úr grasi í heilbrigðu umhverfi.

Maður getur enn fundið til stolts þegar maður keyrir um bæinn í gömlu hverfunum og sér húsin, þessi glæsilegu hús t.d. í Vesturbænum, sem þýddu grundvallarbreytingar á kjörum fólks. Mér finnst satt að segja, herra forseti, þegar maður ræðir þessi mál, les um hversu miklu þau breyttu, um það þegar braggahverfunum var útrýmt, að maður finni hve miklu máli að lífsskoðanir fólks eru ólíkar. Fólk með ólíkar lífsskoðanir raðar sér saman í það sem við köllum flokka til að hafa áhrif á umhverfi sitt og gera breytingar á þjóðfélaginu sem það lifir í, til að reyna að útrýma misrétti og skapa eitthvert form jafnréttis, sérstaklega fyrir börnin og æskufólkið og þau fái vaxið úr grasi án þess að mikil mismunun blasi við. Þegar ég hugsa um þessa framtíðarsýn og þær breytingar sem urðu í samfélaginu í hvert skipti sem jafnaðarmenn voru við stjórnvölinn finn ég til stolts.

Af hverju er ég þá að tala um hryggð? Jú, það er vegna þess að ekki hafa allir haft þessa sýn. Stundum höfum við á hv. Alþingi gert lagabreytingar sem hafa orðið mjög afdrifaríkar og haft þau áhrif að kjör fólks hafi versnað og m.a. haft þau áhrif að húsnæðisúrræði eru enn þá vandamál.

Ég vil strax taka fram að við erum núna að ræða um húsnæðismál í öðru umhverfi en húsnæðismál voru rædd fyrir 70 árum. Við erum líka að ræða þau í öðru umhverfi heldur en húsnæðismál voru rædd, við skulum segja fyrir 15 árum, þegar bæði flokkur minn og flokkur hæstv. félmrh. voru að gera breytingar til framfara í húsnæðismálum fólksins í landinu. Fyrst og fremst skiptir það máli að við erum að ræða húsnæðismál í því umhverfi að búið er að breyta lögum, lögum sem voru til þess fallin að auka framboð félagslegs húsnæðis, fyrst og fremst félagslegs eignarhúsnæðis af því að það var mikil eftirspurn eftir því. Fyrir nokkrum árum voru gerðar breytingar sem gera það að verkum að félagslegar íbúðir eru ekki lengur, nema þá leiguíbúðir og af þeim er ekki byggt nægilega mikið. Ég mun því ræða frv. sem hér er út frá stöðunni sem málin eru í í dag og á vissan hátt taka jákvætt í nokkrar breytingar sem lagðar eru til þessu frv.

[13:45]

En áður en ég geri það vil ég aðeins staldra við hugmyndafræðina frá því á fyrri hluta síðustu aldar og hugmyndafræðina í dag. Þetta með mikilvægi félagslegra úrræða, það að gera fólki kleift að lifa með reisn, helst þannig að allir geti séð fyrir fjölskyldu sinni og fundið að þeir eru að vinna fyrir sér og sínum og það sem þeir geri geri þeir í krafti dugnaðar og sjálfsvitundar og það er þarna sem okkar stærsta verkefni er.

Ég hlýt þá að velta fyrir mér hvort núna séu breyttir tímar. Já, þeir eru breyttir. Það tókst að hjálpa fólki upp úr saggakjöllurum. Það tókst að byggja gífurlega mikið af góðu húsnæði þannig að húsnæðismál í landinu eru almennt séð og í stóru dráttum til fyrirmyndar. Samt er það enn þá svo að fólk býr í kjöllurum. Fólk býr enn þá við óviðunandi aðstæður. Fólk býr í einu litlu herbergi og með aðgang að salerni frammi á gangi. Fólk býr í kjöllurum sem eru svo niðurgrafnir að örmjóa glugga ber við gangstéttina þar sem fólk gengur. Ekki er víst að okkur mundi finnast viðunandi að setjast að í slíku húsnæði. Og það er fólk sem er ekkert með of flottar íbúðir sem býr við þvílíka greiðslubyrði að enn í dag er verið að fást við greiðsluerfiðleikalán og enn er það að hringja í okkur þingmenn til að vita hvað það geti gert; allt leit vel út, teknar voru ákvarðanir út frá greiðsluáformum sem virtust í lagi, en svo breyttist umhverfið hjá því, lán hækkuðu, verðbólga jókst, vextir hækkuðu en laun þess lítið og aðstæður breyttust ekki, þannig að það sem átti að vera í lagi reynist ekki í lagi og svo getur farið að það missi íbúðirnar.

Það sem ég er að segja er: Það er enn þá fátækt. Margt fólk býr við greiðsluerfiðleika. Mjög margt fólk mun ekki geta eignast íbúðir þrátt fyrir lög um að það geti fengið félagsleg lán til viðbótar venjulegu láni og það er það fólk sem við verðum að hugsa um og tryggja að eigi kost á leiguhúsnæði og að við höfum búið til slíkt umhverfi í húsnæðismálum að það geti fallið að högum sem flestra, að þeir sem hafa fjármuni geti leikið sér að því að skipta um húsnæði og kaupa og selja, enda er það á þeirra eigin ábyrgð, en að þeir sem minna hafi fái stuðning við það að koma sér inn í sómasamlegt húsnæði á viðunandi kjörum og að þeir sem alls ekki geta keypt eða búa við erfiðleika, veikindi, fötlun eða annað, eigi kost á húsnæði.

Þetta er markmiðið sem ég tel að við sem tilheyrum félagshyggjuflokkum eigum að sameinast um. Þess vegna ætla ég fyrst og fremst að tala um frv. út frá þeirri stöðu sem er í dag.

Hins vegar get ég ekki stillt mig um, vegna þess að ég stend hér, þingmaður í stjórnarandstöðu, og ræði við hæstv. félmrh. sem valdið hefur, að minna á að við vorum ekki sammála þeim breytingum sem hæstv. félmrh. gerði á húsnæðiskerfinu fyrir fimm árum. Við sögðum fyrir um ýmsar afleiðingar sem mundu verða að óbreyttu en ekki var hlustað á það og þær gengu því miður eftir. Ég minni á að óþarfi var að breyta Húsnæðisstofnun í Íbúðalánasjóð og ég hef það á tilfinningunni að sú breyting hafi verið eins og sú sem við ræðum á morgun, þegar breyta á Þjóðhagsstofnun og leggja hana niður, að þarna sé fyrst og fremst verið að stokka upp til þess að losa um starfsmannahald. Íbúðalánasjóðurinn varð dýrari en gamla Húsnæðisstofnunin og ljóst er hvað varðar þá breytingu sem við munum ræða á morgun að ekki verður sparnaður af því að leggja niður Þjóðhagsstofnun. Ég hlýt að minna á þetta vegna þess að við erum alltaf að leita að einhverjum sannleik og réttlæti og sjáum það á ólíkan hátt.

Ég ætla líka að minna á að niðurlagning félagslega kerfisins hafði gífurleg áhrif á verð íbúða, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu. Í einu vetfangi var hætt að byggja félagslegar íbúðir á vegum sveitarfélaga, sem voru u.þ.b. 300 á ári, og á næstu tveimur árum á eftir fór einkageirinn ekki í gang og fækkun varð á íbúðum hér samhliða stórauknum flutningi fólks til höfuðborgarsvæðisins. Þetta olli verðhækkunum, hækkuðu fasteignamati, lægri vaxtabótum og lægri barnabótum og hafði áhrif á afkomu fjölmargra fjölskyldna.

Herra forseti. Nú ætlum við að breyta þessu og ég tel nauðsynlegt að Alþingi setji lög sem lagfæra óviðunandi ástand og þá verður það líka að vera lausn. Þeir þingmenn sem hafa talað á undan mér hafa borið fram spurningar sem ekki eru komin svör við. Ekki er ásættanlegt að setja lög þar sem réttlæting laganna er önnur úrræði sem eiga að koma síðar og þau úrræði koma ekki, og þá vísa ég til leiguíbúðanna. Ef komið hefðu góð úrræði og mikið fjármagn verið veitt 1998 til byggingar leiguíbúða, eins og við lögðum til, þá væri ekki sami vandi uppi hjá sveitarfélögum hér í þéttbýlinu eins og er í dag. Það kemur fram hjá Reykjavíkurborg. Reykjavíkurborg hefur verið að kaupa íbúðir sem fólk vill selja og leyst þær inn og mönnum hefur ekki líkað að vera að taka íbúðir af efnalitlum fjölskyldum á slíku lágmarksverði. Þetta er m.a. afleiðing af því að kerfinu var breytt að hluta 1998, en það sem við átti að eta kom ekki fyrr en síðar. Við hljótum að sameinast um það að gera fólki kleift að stækkandi fjölskyldur geti stækkað við sig. Ef það er í félagslegu kerfi þá geti það stækkað við sig í félagslegu kerfi sé það nauðsynlegt miðað við tekjur og aðstæður heimilisins.

Ég vil einnig minna á að í frv. erum við að ræða um tvennt, vanda sveitarfélaganna sem er sértækur og vanda fólksins sem fær þessar íbúðir eða þarf á þeim að halda, sem er allt annar. Fólkið þarf að eiga möguleika á öruggu húsnæði eins og ég hef talað um og ef það ræður ekki við félagslegar eignaríbúðir, að leiguíbúðir séu þá fyrir hendi. Við verðum að skoða það að í þessu tilviki er mesta álagið á Reykjavík vegna þess að þegar hallar undan fæti, þá sækir fólk til höfuðborgarinnar þar sem þjónustan er, þar sem úrræðin eru, þar sem læknisþjónustan er ef veikindi eru hjá börnum, og í stóru bæina þar sem úrræði eru t.d. hvað varðar fatlaða og aðra. Það er mjög rík tilhneiging til þess að fólk flytji frá smærri sveitarfélögum þar sem þjónusta er minni.

Vandi sveitarfélaganna er annar. Þau hafa í mörgum tilfellum byggt of margar íbúðir. Í mörgum tilfellum litið of mikið til atvinnulífsins á staðnum og byggingariðnaðar og sátu strax uppi með fleiri íbúðir en þörf var fyrir og við vitum nákvæmlega hvaða svæði þetta eru. Það þekkir enginn betur en ég sem var formaður húsnæðismálastjórnar á þeim tíma og reyndi að sporna gegn þessu, og þekki nákvæmlega viðbrögðin og hvernig aðhafst var til að fá íbúðir hvað sem það kostaði. Og síðan er það kaupskyldan, þegar menn þurfa að leysa til sín íbúðirnar samkvæmt lögum og hafa ekkert við þær að gera og þá myndast halli.

Ég geri mér alveg grein fyrir, herra forseti, að það þýðir ekkert núna árið 2002 að standa hér og segja: Já, en ástæðan var þessi. Vegna þess að hver svo sem ástæðan var, þá erum við þar komin að við verðum að sameinast um að leysa vandann.

Hér hefur komið fram að sveitarfélög geta leyst til sín leiguíbúðir. Þá hlýt ég að spyrja varðandi það: Má sveitarfélag selja íbúð og fá framlag af því að íbúðin sem sveitarfélagið leysti til sín var á miklu verri kjörum og miklu dýrari en íbúð sem sveitarfélagið gat keypt á almennum markaði í sveitarfélaginu? Og getur sveitarfélagið síðan, þegar það er búið að selja þær íbúðir sem það leysti til sín í gegnum kerfið og fékk framlag til þess, keypt aðrar íbúðir á markaðsverði? Við skulum muna það um leið og ég ber fram þessa spurningu að markaðsverðið er það sem fólk fær fyrir eignina sína eftir því hvort einhver eftirspurn er eftir eignum. Ef of mikið húsnæði er í boði, þá er engin eftirspurn. Markaðsverð þýðir í þessu tilfelli oft á tíðum að fólk er að selja lífsstarfið sitt á útsölu vegna þess að það kostaði fólk einhvers staðar annars staðar jafnmikið að byggja sitt hús eins og það kostaði mig eða hæstv. félmrh. en það skilur lífsstarfið sitt eftir á stöðum úti á landi af því það fær svo lítið fyrir og á oft ekki einu sinni fyrir útborgun í lítilli íbúð hér. Mér finnst mikilvægt að fá að heyra hvort sveitarfélag getur núna leikið sér með þá lagareglu í kjölfar þess að hafa leyst til sín íbúðir innan kerfisins.

Í öðru lagi óska ég eftir upplýsingum um 1. gr., a-lið. Þar segir að þóknun ráðgjafarnefndar varasjóðsins verði greidd úr sjóðnum samkvæmt ákvörðun ráðherra. Ég er nýbúin að fá svar við fyrirspurn um störf þóknunarnefndar á mitt borð og þar kemur í ljós að þóknunarnefndin ákveður í flestum tilfellum þóknun, en í sumum tilfellum er slíkt ákveðið annars staðar og oftast nær þá hjá kjaranefnd. Ég vil því spyrja hvaða leið verði farin til að ákveða þóknun fyrir þessa nefnd, er það þóknunarnefnd, kjaranefnd eða sértæk ákvörðun ráðherra?

Ég ætla líka að spyrja um 4. tölul. í b-lið 1. gr., þ.e. að hafa umsýslu með Tryggingarsjóði vegna byggingargalla og að varasjóður húsnæðismála skuli taka við öllum eignum, réttindum og skyldum Tryggingarsjóðs vegna byggingargalla. Það er áhugavert að vita hvernig sá sjóður hefur virkað hingað til. Hefur mikið verið sótt í hann? Eru fjármunir í þeim sjóði? Eru miklar kröfur gerðar til þess sjóðs? Er hugsanlegt að það verði of þungt að vera með þetta sameiginlega, eða er talið að varasjóður húsnæðismála hafi ávinning af því að fá tryggingarsjóðinn inn til sín?

Af því að okkur sem höfum farið ofan í þetta mál þykir sem 60 millj. á ári frá ríkinu til þessa varasjóðs sé mjög lítið, þá langar mig til að spyrja hvort aðrar tillögur hafi verið af hálfu sveitarfélaganna. Liggur einhvers staðar fyrir mat sveitarfélaganna á því hvaða fjármagn þyrfti að vera í þeim sjóði til þess að viðunandi staða náist hjá sveitarfélögunum þegar þau fara í þá uppstokkun sem verður í kjölfar þess að lögin verða sett, vonandi í þannig sátt að ef upp koma góðar ábendingar eða annað í félmn. verði reynt að skoða þetta í einhverju samkomulagi af því þetta er eitt það þýðingarmesta sem við fáumst við?

Herra forseti. Eins og ég hef rakið hafa jafnaðarmenn lagt mikla áherslu á húsnæðismál alla tíð og á sínum tíma var mjög mikið byggt og skipti miklu máli ekki síst fyrir Reykjavík og stóru bæina á suðvesturhorninu hvað mikill kraftur var í uppbyggingunni í Reykjavík, í Kópavogi, í Hafnarfirði og í Mosfellsbæ. Þetta gjörbreytti aðstæðum fólks og möguleikum á að búa vel. Þessu viljum við ekki breyta, þ.e. við gerum okkur grein fyrir að komin eru ný lög um húsbréf og félagsleg lán og mjög mikilvægt er að þau virki þá eins og þau eru hugsuð og að það sem hér verður gert verði til þeirra úrbóta sem enn þá hefur á skort. Ég heyri það á fulltrúum Samfylkingarinnar í félmn. að þeir ætla að skoða þessi mál með opnum huga, en ég hvet líka til þess að hæstv. félmrh. geri nú það átak sem þarf til að koma þessum málum í viðunandi ástand vegna þess að hrakspár okkar á sínum tíma voru ekki af óvilja eða löngun til að halda því fram að eitthvað væri vont, heldur komu þær fram af mikilli þekkingu fólks sem hefur unnið með húsnæðismál, ekki bara í ár heldur áratugi.