Húsnæðismál

Þriðjudaginn 09. apríl 2002, kl. 14:44:14 (7292)

2002-04-09 14:44:14# 127. lþ. 115.13 fundur 710. mál: #A húsnæðismál# (félagslegar íbúðir) frv. 86/2002, JB
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[14:44]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Þetta frv. til laga um breytingu á lögum um húsnæðismál sem hér er til 1. umr. og hæstv. félmrh. hefur mælt fyrir er í sjálfu sér lofsverð viðleitni eða a.m.k. ákveðin viðleitni af hálfu hins opinbera til að mæta þeim gríðarlega vanda sem hefur safnast upp hjá sveitarfélögunum vegna greiðslustöðu sveitarfélaganna vegna félagslega íbúðakerfisins.

[14:45]

Virðulegi forseti. Ég held að mjög hollt sé að halda stöðugt til haga hvernig þessi skipan komst á, hver bar ábyrgð á því að hún komst á, en það var með lögum frá Alþingi. Alþingi mótaði stefnu í húsnæðismálum og samþykkti þessi lög, bæði um félagslega íbúðakerfið og félagslegt leiguhúsnæði. Auk þess stendur líka í lögum, a.m.k. í sveitarstjórnarlögum, að það sé almenn skylda sveitarfélaga að sjá íbúum sínum fyrir húsnæði. Á sveitarfélögunum hvílir sem sagt sú skylda sjá til þess að þar sé stöðugt framboð af fullnægjandi húsnæði fyrir íbúa þess og það er skylda sveitarfélagsins að grípa þar inn í ef brýna nauðsyn ber til. Þarna kemur löggjafinn að með tvennum hætti, annars vegar með því að skylda sveitarfélögin til þess að sjá til þess að þar sé húsnæði og í öðru lagi ákveður svo löggjafinn leikreglurnar, ákveður m.a. að sveitarfélögin skuli bera bakábyrgð og innlausnarskyldu á félagslegum eignaríbúðum sínum.

Þegar þessari tilhögun var komið á var mikil bjartsýni víða um land. Menn voru bjartsýnir á að fólki mundi fjölga í þéttbýli vítt og breitt um landið og að stefna ríkisstjórnarinnar eða stefna stjórnvalda í byggðamálum og atvinnumálum mundi stuðla að því að byggð og búseta efldist frekar en hitt. Í því ljósi réðust sveitarfélögin að sjálfsögðu í að byggja íbúðarhúsnæði, eins og þeim bar reyndar skylda til, fyrir sína íbúa og töldu að að óbreyttu ástandi eða alla vega ef ástand í byggðamálum og atvinnumálum versnaði ekki, ætti þetta fyrirkomulag ekki að verða þeim vandamál. En annað kom á daginn. Nú síðustu ár hefur einmitt mjög hallað á í byggða- og búsetumálum. Mörg sveitarfélög sem héldu að þau væru að ganga til móts við bjartari tíma hafa mátt þola mikinn samdrátt, brottflutning atvinnutækifæra og samþjöppun í sjávarútvegi sem hefur svipt einstök sveitarfélög eða íbúa þeirra forræði yfir auðlindum og atvinnufyrirtækjum. Það hefur leitt til þess að íbúar hafa flutt burt og þá gjarnan þeir íbúar sem hafa áður haft hærri tekjur í sveitarfélaginu. Eftir stendur fækkun íbúa og minnkandi tekjur sveitarfélaganna. Þetta er sú byggðastefna í raun sem mörg sveitarfélög hafa staðið frammi fyrir á undanförnum árum.

Við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði höfum því í umræðum á Alþingi og með tillöguflutningi á Alþingi lagt ríka áherslu á að það sé skylda Alþingis, skylda ríkisvaldsins, að koma til móts við og leysa bráðavanda margra þeirra sveitarfélaga sem eru í þessari stöðu, að það sé lágmarksskylda fyrir utan það náttúrlega að snúa við þeirri öfugu byggðaþróun sem þessi ríkisstjórn hefur staðið fyrir með margvíslegum aðgerðum sínum.

Við höfum flutt á Alþingi tillögur um að ríkisvaldið veiti fé m.a. til félagslega íbúðakerfisins hjá þeim sveitarfélögum sem þar eru verst stödd. Við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði höfum verið afar andvíg því að gengið sé á eignir sveitarfélaganna, þjónustueignir sveitarfélaganna til þess að leysa greiðsluvanda félagslega íbúðakerfisins. Nægir t.d. að minna á harða andstöðu okkar við að knýja sveitarfélögin á Vestfjörðum til að selja orkubú sitt og láta andvirði þess ganga m.a. upp í skuldir við félagslega íbúðakerfið. En þetta er sameiginlegt vandamál. Þetta er samfélagsvandamál. Byggðastefnan hefur ekki gengið upp, byggðastefnan sem stjórnvöld bera að verulegum hluta ábyrgð á. Sömuleiðis bera stjórnvöld ábyrgð á fyrirkomulagi félagslega íbúðakerfisins þar sem m.a. eru lagðar þær kvaðir á sveitarfélögin að þau skuli bera innlausnarskyldu á félagslegum eignaríbúðum.

Í þetta hafa svo verið settar nefndir. Hæstv. félmrh. hefur af og til sýnt ákveðna viðleitni til að kanna hvernig mætti koma að þessu máli, þó ég hafi verið andvígur þeirri hugmynd og aðgerð að nota Orkubú Vestfjarða til þess að leysa vanda félagslega íbúðakerfisins. Hæstv. félmrh. skipaði þá nefnd. Í henni sátu Halldór Halldórsson, bæjarstjóri á Ísafirði, Gunnlaugur Júlíusson og fleiri. Hæstv. ráðherra getur leiðrétt mig, en mig minnir að þessi nefnd hafi lagt til ákveðnar leiðir til þess að koma inn í þessa fjármögnun. Hún skilaði af sér minnisblaði 21. maí árið 2001 þar sem lagðar voru til ákveðnar aðgerðir. Ég held að sú nefnd hafi lagt þar til miklu stærri hlut af hálfu ríkisins inn í þetta púkk.

Mér þætti ágætt ef hæstv. félmrh. gæti rifjað upp hvað sú nefnd lagði til og hvernig þær tillögur hafa síðan þá þynnst út. Ég hef fyrir framan mig Bæjarins besta á Ísafirði frá 29. ágúst 2001. Þar stendur að nefndin hafi ekki talið sig hafa umboð til að semja um fjármögnun og skiptingu. Með leyfi forseta, vitna ég í þessa frétt:

,,... en afstaða fulltrúa sveitarfélaga í nefndinni er sú að skiptingin verði 90% fjárframlag frá ríki á móti 10% framlagi sveitarfélaga árlega eftir þörf hvers eignarhaldsfélags.``

Þá var verið að hugsa um stofnun eignarhaldsfélags um þessar félagslegu íbúðir. Mér sýnist nú að þær tillögur sem lagðar eru til í þessu frv. víki allmjög frá því sem þarna var lagt til.

Herra forseti. Fjárhagsstaða sveitarfélaganna hefur haldið áfram að versna, eins og ég vék að áðan, margra þeirra og einmitt þeirra sömu og eiga í fjárhagslegum erfiðleikum með félagslega íbúðakerfið. Ég hygg að hjá sumum sveitarfélögum fari næstum 80--90% af rekstrartekjum og jafnvel meira til lögbundinna skyldurekstrarverkefna. Þá verður lítið eftir til þess að greiða niður fjárfestingar eða til að leggja í stofnkostnað. Þetta hefur farið versnandi hjá mörgum þessum sveitarfélögum á undanförnum árum. Þess vegna verður sú aðgerð sem hér er lögð til um að sveitarfélögin komi í megindráttum að fjármögnun þessa, að teljast svona heldur dapurleg og fátækleg. En eins og fram hefur komið hér í umræðunni er lagt til að af þessum 1,1 milljarði sem ætlunin er að verja á næstu fjórum, fimm árum í aðstoð við félagslega íbúðakerfið, komi 600 millj. kr. frá sveitarfélögunum eða af fjármagni sem þeim tilheyrir, en einungis um 300 millj. frá ríkinu og 200 millj. frá Íbúðalánasjóði.

Virðulegi forseti. Þessi skipting finnst mér vera röng. Mér finnst ábyrgð Íbúðalánasjóðs sem hér kemur fram allt of lítil. Meira að segja er í þeirri grein þar sem vikið er að þátttöku Íbúðalánasjóðs, þar sem Íbúðalánasjóði er heimilað að afskrifa útistandandi kröfur á félagslegum íbúðum sveitarfélaga, þess krafist að sveitarfélögin komi með hluta á móti, einmitt þessi fátæku sveitarfélög sem ekki hafa efni á að standa í skilum með greiðslur af þessum íbúðum. Þarna eru því sett nokkuð ströng skilyrði fyrir því að Íbúðalánasjóður megi koma inn með þessum hætti hvað varðar afskriftir á kröfum. Hætt er því við að þessi aðferð falli að einhverju leyti um sjálfa sig og verði illframkvæmanleg ef þeiri kröfur verður haldið til streitu að sveitarfélögin komi með þessi mótframlög, einmitt þessi fátækustu sveitarfélög sem eiga í þeim greiðsluvandræðum sem leiða til þess arna.

Virðulegi forseti. Þess vegna finnst mér það sem ríkið kemur hér inn með vera ansi dapurlegt og bera vott um mikla smámunasemi. Þó að Samband sveitarfélaga meti það svo að betra sé að sjá örlitla viðleitni heldur en ekki neitt, þá er engu að síður dapurlegt að ekki skuli komið hér myndarlegar að því það gæti hugsanlega leitt til árangurs.

Virðulegi forseti. Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. félmrh.: Hver mikil er hin bráða skuldastaða í félagslega íbúðakerfinu, þ.e. vandi þess? Mig minnir að í ágætu yfirliti sem Halldór Halldórsson, bæjarstjóri á Ísafirði, flutti fyrir nokkrum mánuðum síðan á fundi hjá sveitarfélögum hafi verið greint frá því að þessi bráðavandi væri einhvers staðar á milli 2 og 3 milljarðar kr. Það væri bráðavandi sem þyrfti í rauninni að afskrifa. Það þyrfti að skrifa þessar skuldir niður. Þetta væru ekki heildarskuldirnar heldur það sem þyrfti að lækka skuldirnar um, þ.e. bráðavandi sem þyrfti að lækka skuldirnar um. Þau skref sem hér er verið að stíga eru því náttúrlega ansi smá miðað við þessa brýnu þörf, þörf sem, að mínu mati, hið opinbera, ríkið, ber alveg jafna ábyrgð á. Þetta er líka fjármagn sem Íbúðalánasjóður, að mínu mati, ætti að bera aukna ábyrgð á. Mér fyndist jafnframt að það ætti skoða hvort ekki þyrfti að breyta lögum um Íbúðalánasjóð þannig að rýmka mætti þær heimildir sem hann hefði til þess að afskrifa skuldir og taka þátt í þessari fjármögnun.

Virðulegi forseti. Ég vildi líka spyrja hæstv. ráðherra út í sérmálefni eins og málefni sveitarfélaganna á Vestfjörðum. Nú var þess krafist í uppgjörsferlinu eða söluferli Orkubús Vestfjarða, þegar ríkið yfirtók eignir Orkubús Vestfjarða og eignir sveitarfélaganna í Orkubúi Vestfjarða, að hluti andvirðisins sem átti að falla í skaut einstakra sveitarfélaga yrði sett, að mig minnir, á biðreikninga sem áttu að vera til tryggingar ákveðnu uppgjöri í sambandi við skuldir vegna félagslega íbúðakerfisins, meira að segja skulda sem ekki voru einu sinni fallnar í gjalddaga. Þó voru sveitarfélögin krafin um að setja þessar ákveðnu upphæðir inn á biðreikninga meðan verið væri að leysa og finna fullnægjandi úrlausn á fjárhagsvanda félagslega íbúðakerfisins á landsvísu. Þá voru þau krafin um að setja þetta inn á biðreikninga.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig standa mál varðandi þessa eignafrystingu eða peningafrystingu sveitarfélaga á Vestfjörðum vegna félagslega íbúðakerfisins og hvenær má vænta þess að sveitarfélögin geti fengið þessa peninga, leyst þá út, þ.e. að þessi mál komist í varanlegt horf? Hver verður staða þeirra sveitarfélaga sem voru knúin til þess að geyma hluta af söluandvirðinu, frysta það upp í ábyrgðir vegna félagslega íbúðakerfisins þótt þau væru í fullum skilum? Þar sem við erum að ræða núna breytingar og inngrip í félagslega húsnæðiskerfið finnst mér rétt að skýra stöðu þeirra sveitarfélaga sem knúin voru til eignasölu.

[15:00]

Ég átta mig ekki alveg á hvort það verði skylda að sveitarfélögin stofni eignarhaldsfélög utan um rekstur leiguíbúðanna eða hvort þau megi vera með annað form á. Mér hugnast ekki, virðulegi forseti, að verið sé að setja að nauðsynjalausu kvaðir og tilskipanir á sveitarfélögin hvað varðar rekstrarform félagslegra viðfangsefna sinna. Ég spyr því hvort verið sé að gera það að skilyrði að ákveðnu eignarformi eða rekstrarformi verði komið á til að slík aðgerð og þetta verkefni fari í gang hjá einstökum sveitarfélögum.

Ég vek einnig athygli á því að í frv. virðist vera veruleg hvatning til þess að sveitarfélögin reyni að losa sig við félagslegar íbúðir sínar og ég velti því fyrir mér hvort hæstv. ráðherra sjái þá sterku hvatningu sem lögin bera þar með sér í samræmi við þær skyldur sem sveitarfélagið ber gagnvart því að geta ávallt útvegað íbúum sínum fullnægjandi húsnæði. Er félagslega rétt að vera með þá beinu hvatningu eða aðgerðahvatningu í þá veruna að sveitarfélögin eigi að hafa það sem markmið að losa sig við hið félagslega húsnæðiskerfi? Ég tel það ekki vera. Ég tel að hvert sveitarfélag þurfi stöðugt og ávallt að hafa ákveðinn fjölda af íbúðum til ráðstöfunar til að geta leigt út fyrir íbúa sína sem af ýmsum ástæðum annaðhvort vilja ekki eða geta ekki ráðist í að eiga eigið húsnæði, og fráleitt sé að setja lög sem gangi þvert á þær samfélagslegu skyldur sveitarfélaganna.

Virðulegi forseti. Ég hef nefnt nokkur þau atriði sem ég hafði viljað koma á framfæri við 1. umr. málsins. Mér finnst að ekki hafi komið fram hver vandinn er í raun, hversu stór hann er, hversu háar upphæðir er um að ræða sem er bráðavandi sveitarfélaganna hvað þetta varðar og auk þess líka hversu langt þessi tillaga um aðgerðir kemur til móts við það. En ég ítreka að í sjálfu sér má þakka það litla skref sem hér er stigið þó fátæklegt og veikburða sé og hvergi í takt við þær skyldur og ábyrgð sem ríkisvaldið hefur gagnvart félagslega íbúðakerfinu og fjárhagsvanda sveitarfélaganna hvað það varðar.