Húsnæðismál

Þriðjudaginn 09. apríl 2002, kl. 15:26:53 (7295)

2002-04-09 15:26:53# 127. lþ. 115.13 fundur 710. mál: #A húsnæðismál# (félagslegar íbúðir) frv. 86/2002, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[15:26]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. félmrh. vísar til þess að hér sé um að ræða mál sem sé afrakstur samkomulags ríkisvaldsins og sveitarfélaganna. Ég á ákaflega erfitt með að ímynda mér annað en að sveitarfélögin líti á það sem nauðungarsamkomulag í raun því þarna er sveitarfélögunum er gert að sæta slíkum kostum. Það er til marks um samningsstöðuna, til marks um að sveitarfélögin eru meira og minna á hnjánum gagnvart ríkinu sem sífellt neytir aflsmunar, að þau skuli lúta að svona litlu. Þetta samkomulag er að mestu leyti borgað af þeim sjálfum og ríkið er að leggja sáralítið, nánast ekkert, fram til viðbótar því sem gefin voru fyrirheit um í bráðabirgðaákvæðinu með lögunum á sínum tíma. Svo kemur á daginn að það hefur ekki einu sinni verið efnt. Hér upplýsir hæstv. ráðherra að aðeins í eitt skipti hafi ríkið skilað í sjóðinn þeim 50 milljónum á ári sem til stóð og kannski einhverjum smáaurum í annað skiptið, 17 millj. heyrði ég hér á göngum þannig að ríkið hefði á þessum árum greitt í sjóðinn kannski 67 milljónir í allt. Það er alveg augljóst, herra forseti, að ríkið er einfaldlega að láta sveitarfélögin taka þessar byrðar á sínar herðar. Væntanlega er ástæða þess hversu málið hefur dregist gríðarlega að sveitarfélögin hafa þráast við og lifað í voninni um að þau fengju eitthvað út úr þessu. En að lokum lúta þau svo þessum afarkostum.

Varðandi það að rekstrarstaða sveitarfélaganna sé að batna þá tel ég það ekki einhlítan mælikvarða þó að hallareksturinn sem slíkur, mældur í milljörðum, minnki þegar útgjöldin vaða á sama tíma upp sem hlutfall af skatttekjum. Er það ekki alveg eins ávísun á að sveitarfélögin eru hætt að geta hreyft sig, hætt að geta fjárfest? Þau eru orðin svo skuldsett að þau komist ekki lönd né strönd og allar tekjur þeirra fara orðið í rekstur?