Húsnæðismál

Þriðjudaginn 09. apríl 2002, kl. 15:29:17 (7296)

2002-04-09 15:29:17# 127. lþ. 115.13 fundur 710. mál: #A húsnæðismál# (félagslegar íbúðir) frv. 86/2002, félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[15:29]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Finnst hv. þm. líklegt að Gunnlaugur Júlíusson hagfræðingur sem einu sinni var töluvert mikið kunnugur hv. þm. (SJS: Er enn.) og er enn, lúti að einhverjum nauðungarsamningum? Ég get varla hugsað mér mann sem fráleitara væri að ætla að neyða. Ímyndar hann sér að Helgi Hjörvar, forseti borgarstjórnar, færi að gera það fyrir ríkisstjórnina að sættast á einhverja nauðungarsamninga? Ég er hræddur um ekki. Ímyndar hv. þm. sér að Halldór Halldórsson, bæjarstjóri á Ísafirði, sem þekkir manna best af eigin reynslu hvernig er að reka og standa í rekstri félagslega íbúðakerfisins á Vestfjörðum fari að lúta að einhverjum nauðungarsamningum? Ég ætla ekki að ímynda mér það.

Varðandi fjárhag sveitarfélaganna þá er alveg rétt að þarna er um meðaltal að ræða og þarna er um of lélega útkomu að ræða. Meðan skuldasöfnunin er meiri en eignasöfnunin þá er það auðvitað slæm þróun. En ekki má mála fjandann á vegginn og halda að öll sveitarfélög séu að fara yfir um. Auðvitað vegur það mjög þungt að Reykjavík stendur afar vel og Reykjavík vegur mjög þungt í þessum samanburði. En þess má líka geta að ekki fullnýta nærri öll sveitarfélögin tekjustofna sína.