Húsnæðismál

Þriðjudaginn 09. apríl 2002, kl. 15:35:39 (7299)

2002-04-09 15:35:39# 127. lþ. 115.13 fundur 710. mál: #A húsnæðismál# (félagslegar íbúðir) frv. 86/2002, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[15:35]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég ítreka nokkrar spurningar til hæstv. ráðherra sem hann svaraði ekki.

Hve miklu af innlausnaríbúðum hefur verið breytt í leiguíbúðir frá því félagslega kerfinu var lagt, þ.e. sem sveitarfélögin hafa leyst til sín?

Hver er áætlaður kostnaður við ráðgjafarnefnd varasjóðsins?

Hvers vegna ráðherraþóknun? Ég hélt að við værum að hverfa frá því, eins og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir spurði einnig um.

Ég spyr líka um hvort gerð hafi verið gerð einhver úttekt á kostnaðinum af þessu. Duga þessar 1.100 millj. fyrir þeim verkefnum sem sjóðnum er ætlað að sinna samkvæmt þessu frv.?

Mun félmn. fá úttekt sem er á bak við þessa tölu? Það nægir ekki að setja málið svona fram. Við verðum að vera viss um að hér sé ekki verið að ávísa inn í framtíðina 1.100 millj. sem dekka ekki verkefnið.

Síðan vil ég spyrja hvernig á að afgreiða málin út úr þessum sjóði. Þetta á að gerast á fimm árum. Það koma væntanlega margar umsóknir í einu. Hvaða forgangsröðun verður á þessu? Hefur eitthvað verið hugsað fyrir því?

Síðan væri mjög gott, herra forseti, að hæstv. ráðherra, sem gjarnan fer með tölur um 400 lán til 400 leiguíbúða o.s.frv., upplýsti fólk, sem þarf að borga 70--100 þús. kr. í leigu á mánuði vegna þessara íbúða vegna þessara háu vaxta, hvernig þetta fólk á að fara að því að greiða þessa vexti. Það þýðir ekki að vísa í einhverjar tölur í Reykjavík upp á 25--30 þúsund sem eru auðvitað vegna lána á íbúðum með 1% vöxtum. En þetta er greiðslubyrðin af lánum núna, með 3,5 og 4,5% vöxtum. Frá 70--100 þús. kr. kostar á mánuði að leigja þessar íbúðir, m.a. þessar búsetaíbúðir. Ég bið um, fyrir hönd þeirra þúsunda sem bíða eftir leiguíbúðum, að ráðherrann segi þessu fólki hvernig það eigi að fara að því að borga leiguna af þessum íbúðum.