Vegáætlun fyrir árin 2000--2004

Þriðjudaginn 09. apríl 2002, kl. 15:45:17 (7303)

2002-04-09 15:45:17# 127. lþ. 115.15 fundur 680. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000--2004# þál. 28/127, samgrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[15:45]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um breytingu á vegáætlun fyrir árin 2000--2004. Samkvæmt vegalögum ber að endurskoða vegáætlun á tveggja ára fresti. Sé tekið mið af því á að endurskoða þessa áætlun nú á þessu þingi. Þetta þýðir að óbreyttum lögum að samþykkja þarf nýja vegáætlun árin 2002--2005.

Fyrir Alþingi liggur nú frv. til laga um samgönguáætlun og frv. um ýmis lagaákvæði er varða samgönguáætlun. Samkvæmt þessum frv. er gert ráð fyrir að lagðar verði fyrir Alþingi næsta haust till. til þál. um samgönguáætlun og jafnframt um fjögurra ára áætlun hennar. Hin nýja samgönguáætlun mun þá taka til áranna 2003--2014 og fjögurra áætlunin, sem í raun tekur við hlutverki hafnaáætlunar, sjóvarnaáætlunar, vegáætlunar og flugmálaáætlunar, mun ná til áranna 2003--2006. Samgönguáætlun mun verða mun víðfeðmari en fyrri áætlanir, þ.e. ætlunin er að í henni komi fram auk fjárfestingaráætlana yfirgripsmikil markmiðssetning um flesta þætti samgangna og horft verður lengra fram á veginn en áður og þá með hliðsjón af reynslu sem fengist hefur með langtímaáætlun í vegagerð.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið verður ekki talið hyggilegt né hagkvæmt að leggja fram vegáætlun til fjögurra ára nú þegar hún getur einungis gilt fyrir árið 2002. Því er hér lögð fram till. til þál. um vegáætlun til eins árs, þ.e. ársins 2002. Við það næst eðlilegt framhald vinnunnar að teknu tilliti til þess að framangreind lagafrv. verði samþykkt á hinu háa Alþingi. Nái þetta fram að ganga skapast eitt vandamál sem er eingöngu formlegs eðlis. Það er svo að undirbúningur framkvæmda tekur mun lengri tíma en áður var og jafnframt gildir um stærri framkvæmdir að þær ná margar yfir meira en eitt ár. Því skapast óvissa um heimildir Vegagerðarinnar til þess að bjóða út framkvæmdir á þessu ári sem ná yfir á næsta ár eða fleiri ár. Jafnframt skapast óvissa um sams konar framkvæmdir sem þegar hafa verið boðnar út á þessu ári en eru til lengri tíma. Lagt er því til að með nál. samgn. um vegáætlun fyrir árið 2002 fylgi listi yfir slíkar framkvæmdir sem staðfesti þær heimildir sem um er að ræða. Hér er fyrst og fremst um formsatriði að ræða þar sem vænta má tillögu um samgönguáætlun og fjögurra ára áætlun hennar á upphafsdögum Alþingis næsta haust sem festa nauðsynlegar heimildir í því skyni eins og fyrr var getið um.

Samgn. lagði fram frhnál. við 3. umr. þar sem lagt er til nýtt bráðabirgðaákvæði í frv. til laga um ýmis lagaákvæði er varða samgönguáætlun er heimilar framangreinda tilhögun mála sem við byggjum á.

Tekjuhlið vegáætlunar er með nokkuð hefðbundnum hætti. Markaðir tekjustofnar eru sem fyrr uppistaðan í fjáröfluninni. Þar er gert ráð fyrir óbreyttum gjaldskrám út árið en lítið eitt hækkandi tekjum í þungaskatti, einkum vegna fjölgunar minni dísilbifreiða. Er þetta í takt við þá þróun sem verið hefur undanfarin ár. Heildarupphæð markaðra tekna að fráteknu umsýslugjaldi er 10.346 millj. kr.

Vegagerðinni hafa verið falin nokkur ný umsýsluverkefni að undanförnu. Má þar nefna umsjón með sérleyfum, hópferðum og vöruflutningum og útgáfu leyfa til leyfishafa í slíkum flutningum. Einnig hefur hún umsjón með leigubifreiðum og leyfisveitingum til rekstraraðila í þeim akstri. Gjald er greitt fyrir leyfisveitingarnar sem á að standa undir kostnaði við þær.

Þá var Vegagerðinni á síðasta ári falin umsjón með þeim flugleiðum sem ríkið styrkir. Með því fylgdu fjárveitingar úr ríkissjóði til að standa undir styrkjum, 123 millj. kr. í ár. Önnur fjáröflun er viðbótarfé, 500 millj. kr. framlag úr ríkissjóði, og er það sama upphæð og komið hefur úr ríkissjóði síðustu þrjú árin.

Við afgreiðslu vegáætlunar á Alþingi vorið 2000 var lögð til sérstök fjáröflun að upphæð 2,3 milljarðar kr. og var m.a. áformað að afla þessa fjár með sölu ríkiseigna.

Við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2002 var ákveðið að fresta framkvæmdum í vegáætlun fyrir 1.616 millj. kr. og lækka framlög úr ríkissjóði sem því nemur. Verður nánar vikið að frestuninni í tengslum við gjaldahlið vegáætlunar.

Framsetning gjaldahliðar vegáætlunar víkur nokkuð frá því sem tíðkast hefur undanfarið. Er hún sveigð að framsetningu fjárlaga og einnig samræmd við áætlanir annarra samgöngustofnana. Er þá m.a. verið að undirbúa gerð samgönguáætlunar á hausti komanda.

Í fjárlögum fyrir árið 2002 var útgjaldarammi vegáætlunar endanlega ákveðinn. Niðurstöðutala fjárlaganna er 1.616 millj. kr. lægri en útgjaldatala vegáætlunar eins og áður er getið um. Verður því að draga úr framkvæmdum á árinu 2002 sem nemur þeirri upphæð. Af þessari upphæð falla þó 97 millj. kr. á liðinn Rekstur og þjónustu, svo og viðhald. Hefur sú upphæð þegar verið dregin frá útgjaldatillögu áætlunarinnar. Afgangurinn, 1.519 millj. kr., kemur fram sem frestun stofnkostnaðar og hefur ekki verið skipt á einstaka framkvæmdaliði í þeirri tillögu sem hér liggur fyrir.

Árið 2001 var frestað nýbyggingarframkvæmdum fyrir 700 millj. kr. miðað við vegáætlun. Til að raska vegáætlun sem minnst úr þeirri framkvæmdaröðun sem þar var sett fram er eðlilegt að þau verkefni sem frestað var árið 2001 fái fjárveitingar sínar til baka í ár. Þær tillögur um sundurliðun stofnkostnaðar sem lagðar verða fyrir samgn. og þingmannahópa munu taka mið af þessu. Að öðru leyti verða tillögur um frestun framkvæmda við það miðaðar að þær valdi sem minnstri röskun á framvindu verka.

Þau sjónarmið sem hér hafa verið rakin varðandi frestun framkvæmda munu einnig verða höfð að leiðarljósi í haust þegar kemur að gerð samgönguáætlunar og fjögurra ára áætlunar hennar. Þá verður að miða við þau verkefni sem frestað er í ár og fjárveitingar á næsta ári.

Tillaga um frestun framkvæmda verður lögð fyrir samgn. og þingmenn kjördæma eins og venja er. Verður ekki fjallað nánar um það hér að öðru leyti en því að rétt er að víkja lítillega að jarðgangagerð.

Unnið hefur verið að undirbúningi og hönnun jarðgangaverkefna samkvæmt gildandi vegáætlun. Gögn til forvals á verktökum verða send út síðar í þessum mánuði. Miðað er við að velja fjóra til sex verktaka til að bjóða endanlega í og munu þeir fá útboðsgögn send í júní- eða júlímánuði í sumar þannig að unnt verði að byrja framkvæmdir ef allt gengur fram sem að er stefnt síðla hausts.

Í gildandi vegáætlun eru 1.450 millj. kr. fjárveiting til jarðganga. Augljóst er að ekki verður notaður nema hluti af því fé í ár. Þessi liður hlýtur því að leggja verulega af mörkum til frestunar framkvæmda á árinu 2002 miðað við þau áform sem uppi eru og miðað við það sem mögulegt er vegna undirbúnings þeirra verka.

Um gjaldahliðina að öðru leyti er rétt að ítreka það að liðirnir Rekstur og þjónusta eru mjög bundnir og ekki unnt að lækka þá svo neinu nemur. Með sívaxandi kröfum um aukna þjónustu hljóta þeir liðir að fara hækkandi á komandi árum og blasir sú þörf við nú þegar í ýmsum þáttum þeirra liða. Á þetta ekki síst við vaxandi kröfur um vetrarþjónustu sem allir þekkja.

Þrátt fyrir þá frestun framkvæmda sem hér hefur verið gerð grein fyrir er rétt að ítreka að útgjöld til vegamála eru með því allra mesta sem hefur nokkru sinni verið. Það er einungis síðasta ár, árið 2001, sem skilar hærri framlögum til vegamála á föstu verðlagi en vegáætlun 2002 gerir núna ráð fyrir.

Málefni Sundabrautar hafa af eðlilegum orsökum færst inn í umræður nú þegar sveitarstjórnarkosningar eru fram undan. Árið 1999 hófu sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu vinnu við sameiginlegt svæðisskipulag. Lokavinna við svæðisskipulag stendur nú yfir. Talsverðar breytingar hafa orðið á forsendum Sundabrautar. Helstu breytingar eru að uppbyggingu Álfsness hefur verið seinkað og er nú ekki fyrirhuguð fyrr en eftir árið 2024 sem hlýtur að hafa áhrif á áform við framkvæmdir við vegagerð á þessu svæði.

Umfjöllun um legu Sundabrautar hefur að verulegu leyti legið niðri undanfarin missiri. Ástæðan er fyrst og fremst endurskoðun á umferðarlíkani svæðisins sem fór fram samhliða vinnu við svæðisskipulagið að frumkvæði sveitarfélaganna. Vinna við mat á umhverfisáhrifum hefur þó verið í gangi og er í gangi.

Nú liggur endurskoðað umferðarlíkan fyrir og vinna við svæðisskipulagstillöguna er á lokastigi. Ætlunin er að vinnuhópur Vegagerðarinnar og Reykjavíkurborgar láti fara fram arðsemismat á þeim kostum sem helst hafa komið til greina á forsendum svæðisskipulagstillögunnar, en þær forsendur eru talsvert öðruvísi en aðalskipulagið gerði ráð fyrir.

Vinnuhópurinn hefur einkum unnið með tvær leiðir yfir Kleppsvík sem er fyrsti áfangi Sundabrautar. Borgaryfirvöld hafa frekar horft til ytri leiðarinnar, en Vegagerðin frekar til innri leiðarinnar. Verulegur kostnaðarmunur er á þeim leiðum eða 2--6 milljarðar kr. háð útfærslu og tilhögun mannvirkja og er þá miðað við fjórar akreinar. Að mati Vegagerðarinnar er um mjög lítinn mun að ræða á umferðarflæði milli þessara leiða samkvæmt þeim umferðarmódelum sem notuð hafa verið. Ég hef sjálfur lagt á það áherslu að ríkissjóður taki þátt í fjármögnun þessa verkefnis á grundvelli hagkvæmni að teknu tilliti til umferðar og kostnaðar. Sé valin leið sem hefur í för með sér mikinn umframkostnað, þá verði aðrir að bera hann en ríkið. Þetta sjónarmið er í samræmi við 29. gr. vegalaga.

Eins og áður sagði hefur vinna við Sundabraut að miklu leyti legið niðri undanfarið, en nú þarf að taka málið upp að nýju, enda er gert ráð fyrir uppbyggingu í Gufunesi og í Geldinganesi á næstu árum. Í vegáætlun er gert ráð fyrir fjárveitingum til þess að hægt verði að vinna fullum fetum að undirbúningi vegna framkvæmda við Sundabraut.

Þó að vegáætlun taki nú einungis til eins árs er eðlilegt að vinnulag við hana verði með hefðbundnu sniði. Á það við um verkaskiptingu og samspil samgn. og þingmanna einstakra kjördæma, svo og aðra samvinnu við samgrn. og Vegagerðina.

Ég nefndi áðan að æskilegt sé að listar yfir þau verkefni sem binda fjármagn á árunum eftir 2002 fylgi nál. samgn. Drög að slíkum listum verða lögð fyrir samgn. og þingmenn einstakra kjördæma við vinnslu málsins.

Meðal verkefna sem þegar hafa verið boðin út og ekki lýkur á þessu ári má nefna Vestfjarðaveg um Bröttubrekku, Vestfjarðaveg um Klettsháls, Djúpveg í Skötufirði og Norðausturveg á Tjörnesi.

Sem dæmi um verk sem bjóða þarf út á þessu ári en þurfa jafnframt á fjármagni að halda á næsta ári eru eftirfarandi: Brúargerð á Þjórsá, breikkun Reykjanesbrautar, hringvegur á Mývatnsheiði og breikkun brúa á Vatnsdalsá.

Öll þau verkefni sem hér hafa verið talin munu verða á áðurtöldum lista ásamt ýmsum öðrum sem svipað er ástatt um. Þá getur þurft að breyta framkvæmdaröð. Sem dæmi um slíkt er að tillaga hefur komið um að flýta gerð mislægra gatnamóta við Stekkjarbakka í Reykjavík. Mikil þörf er á að ráðist verði í þá framkvæmd sem fyrst og hefur það orðið enn ljósara eftir að umferðarmannvirkin í Mjódd voru opnuð sl. haust. Er eðlilegt að fjárveiting fáist á þessu ári til hönnunar gatnamótamannvirkjana og undirbúnings þannig að hægt verði að bjóða verkið út í haust. Flýting þessara framkvæmda hefur hins vegar óhjákvæmilega í för með sér að fresta verður einhverju öðru hér á svæðinu, en fram hafa komið tillögur frá sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu um að framkvæmdir við gatnamót Stekkjarbakka og Reykjanesbrautar verði teknar fram fyrir og ég er því sammála. Auk þess hafa aðrir komið og vakið athygli á þessu.

Við hefðbundna endurskðun vegáætlunar er að jafnaði farið yfir breytingar á vegakerfinu, flokkun vega og óskir um nýja vegi ef þær eru fyrir hendi. Með hliðsjón af því að endurskoðun nú tekur einungis til eins árs og samgönguáætlun verður unnin í haust er eðlilegt að fresta því til haustsins að fara yfir vegakerfið að öðru leyti.

Ég hef hér á undan vikið að nokkrum helstu atriðum vegáætlunar 2002. En að lokinni umræðu, herra forseti, legg ég til að hæstv. samgn. fái áætlunina til meðferðar og henni verði vísað til síðari umr.