Aukin vanskil og fjölgun fjárnáma í landinu

Þriðjudaginn 09. apríl 2002, kl. 16:21:07 (7310)

2002-04-09 16:21:07# 127. lþ. 115.95 fundur 492#B aukin vanskil og fjölgun fjárnáma í landinu# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[16:21]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er ein af staðreyndum efnahagslífsins á undanförnum árum að skuldir heimilanna hafa aukist gríðarlega. Þær eru komnar langt fram úr árstekjum og við erum komin í þann sérstaka klúbb þjóða þar sem hlutföllin eru á þann veg. Ég hygg reyndar að við séum komin með einhverjar hæstu skuldir heimila í heiminum, mældar sem hlutfall af ráðstöfunartekjum eða árstekjum heimilanna. Við höfum skotið þar þjóðum eins og Japönum og fleirum ref fyrir rass.

Góðærið var með öðrum orðum, herra forseti, í allt of miklum mæli tekið að láni. Eftir situr mjög þunglestað atvinnulíf. Heimili og einstaklingar stynja núna undan skuldabyrðinni. Vanskilin hafa aukist umtalsvert. Það sýna allar mælingar og annríkið hjá sýslumannsembættunum í landinu. Bankarnir og útlánastefnan, útlánagleðin sem þar ríkti á ákveðnu árabili er vissulega hluti af þessu máli. Það er algjörlega ljóst að þessar stofnanir freistuðust til þess að gera út á vaxtamuninn milli Íslands og annarra landa og voru hér með mjög lausan tauminn hvað varðaði útlán á þessum tíma.

Nú þarf að glíma við þennan vanda, þessar miklu skuldir heimilanna, einstaklinganna, atvinnulífsins og síðast en ekki síst þjóðarbúsins út á við. Það sem öllu máli skiptir í því, herra forseti, er að reyna að ná niður kostnaðinum, að hér sé ekki verðbólga, að hér séu hagstæðir vextir og að bankarnir okri ekki á viðskiptavinum sínum með óhóflegum þjónustugjöldum. Það er alveg ljóst að hagnaður bankanna kemur ekki af himnum ofan. Gróðinn verður ekki til í bönkunum eins og sumir bankastjórar hafa haldið hér á umliðnum árum og áratugum, heldur eru það viðskiptavinirnir sem leggja hann til með greiðslum sínum í formi vaxta eða þjónustugjalda, yfirdráttarvaxta o.s.frv.

Herra forseti. Því skiptir miklu máli að á komandi mánuðum og missirum verði allt gert sem hægt er til þess að létta skuldugum heimilum og skuldsettu atvinnulífi það að ráða við sína greiðslubyrði.