Aukin vanskil og fjölgun fjárnáma í landinu

Þriðjudaginn 09. apríl 2002, kl. 16:27:38 (7313)

2002-04-09 16:27:38# 127. lþ. 115.95 fundur 492#B aukin vanskil og fjölgun fjárnáma í landinu# (umræður utan dagskrár), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[16:27]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Ég þakka hv. frummælanda, Karli V. Matthíassyni, fyrir að hreyfa þessu máli. Hér er verið að fjalla um í rauninni eitt af stærri málum þjóðarinnar, skuldir heimilanna sem hafa vaxið með ólíkindum á undanförnum árum.

Herra forseti. Í því samhengi rétt að hafa eftirfarandi í huga: Hvað skapar skuldir? Það eru tveir þættir, þ.e. annars vegar tekjur, innstreymið, og hins vegar útstreymið eða eyðslan. Þegar við lítum á tekjurnar liggur fyrir að kaupmáttur hefur vaxið gífurlega mikið á undanförnum árum og er kenndur við góðærið. En á sama tíma hafa skuldirnar aukist allverulega.

Hvað segir það okkur? Það segir okkur auðvitað að þjóðin er að eyða um efni fram. Það segir okkur líka að vandinn er fyrst og fremst vitund þjóðarinnar. Við höfum ekki náð að tileinka okkur ráðdeild og sparnað eins og þekkt er meðal margra annarra þjóða. Það kann í rauninni að eiga sínar sögulegu skýringar, þ.e. hina gömlu vertíðarhugsun. En á sama tíma kyndir bankakerfið, eins og hér hefur rækilega komið fram, undir neyslu með gylliboðum á sínum alræmda vaxtamun. Það má segja að sé hömlulaust. Þeir bjóða lán til þess að fólk eyði. Á sömu árar leggjast síðan þjónustufyrirtæki og verslanir til þess að ýta undir neysluna. Kaupmáttur hefur vaxið en eyðslan margfalt umfram það. Hér er mikill vandi á ferð og þetta er þjóðarvandi.

Herra forseti. Rétt eins og þjóðin, stjórnmálamenn, samtök og fyrirtæki í þjóðfélaginu öllu hafa skorið upp herör til þess að verðbólgan nái ekki hinum alræmdu rauðu strikum, er vert að fylgja því eftir með þjóðarátaki til þess að efla sparnað, ráðdeildarsemi og ábyrgð allra í þjóðfélaginu. Það er væntanlega besta kjarabótin og mesta hagsæld til framtíðar sem við getum náð hér.