Vegáætlun fyrir árin 2000--2004

Þriðjudaginn 09. apríl 2002, kl. 17:00:26 (7319)

2002-04-09 17:00:26# 127. lþ. 115.15 fundur 680. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000--2004# þál. 28/127, KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[17:00]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla bara að taka undir það að auðvitað er slæmt þegar fresta þarf framkvæmdum. Ég vil láta það koma skýrt fram að á mjög mörgum svæðum á landsbyggðinni er sannarlega þörf á miklum framkvæmdum í vegamálum. Ég reyndi að fara yfir þetta áðan. Eftir fund sem forsvarsmenn Vegagerðarinnar áttu með samgn. þar sem farið var yfir ýmis af þessum gögnum sem fyrir liggja kom mér á óvart, eins og ég sagði áðan, hve mörg verkefni sem áttu að hefjast á þessu ári eru ekki tilbúin. Ég fór yfir það hérna áðan og þeir vegagerðarmenn fóru yfir það hvers vegna svo er, og ég ætla ekki að bæta því við. En ég staldraði við eitt í ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar og vil spyrja hann aðeins út í það. Hann talaði um tekjustofna Vegagerðarinnar, þessa mörkuðu tekjustofna, bensíngjald, kílómetragjaldið í þungaskatti og árgjaldið í þungaskatti. Hann sagði að það hefði ekki fylgt vísitölu. Sannarlega er það rétt að það hefur ekki gert það og það dregur úr möguleikum Vegagerðar til framkvæmda. Nú vil ég spyrja hv. þm.: Ekki hefðum við viljað halda áfram að hækka bensíngjald og hækka bensín til þess að fá meiri tekjur til Vegagerðarinnar, er það? Ég verð líka að segja að auðvitað dró úr framkvæmdagetu Vegagerðarinnar þegar við lækkuðum þungaskattinn um 10% ekki alls fyrir löngu. Var hv. þm. nokkuð að segja að hann væri á móti því að spornað væri við því?

Ég get örugglega verið sammála hv. þm. um að Vegagerðin þarf frekari tekjustofna. Ég sagði það hér áður þegar við ræddum vegáætlun að mér finnst að Vegagerðin hefði á uppgangstímanum og þenslutímanum átt að fá töluvert meira af innflutningsgjöldum af bifreiðum, ekki eingöngu af bensín- og þungaskatti, heldur innflutningsgjöldum af bifreiðum til þess að auka möguleikana til þessa.

En ég vildi aðeins spyrja hv. þm. um þetta með tekjustofnana þar sem hann taldi að þeir hefðu ekki fylgt vísitölu, sem er sannarlega rétt.