Vegáætlun fyrir árin 2000--2004

Þriðjudaginn 09. apríl 2002, kl. 17:04:50 (7321)

2002-04-09 17:04:50# 127. lþ. 115.15 fundur 680. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000--2004# þál. 28/127, KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[17:04]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Mér líður miklu betur eftir þetta andsvar hv. þm. Ég held að við séum alveg á sömu línu hvað þetta varðar. Það gladdi mig mjög varðandi tekjustofna Vegagerðarinnar að það var ekki þannig meint að bensínverð og þungaskattur hefðu átt að hækka.

Hér hefur komið fram að skattlagning af umferðinni, ef það er rétt, sé í kringum 25--26 milljarðar kr. Við sjáum svo hvað rennur til vegamála. Því er það auðvitað hárrétt, og um það erum við vafalaust sammála, að gefa þarf betur í með framkvæmdir í vegamálum víða á landsbyggðinni og við erum sammála um að þessi upphæð þurfi að aukast og vegaframkvæmdir þurfi að fá meira af þessum 26 milljörðum kr.

Hér kom t.d. fram í gær í umræðu um umferðaröryggismál að heildarumferðarlagasektir sem innheimtar eru hjá ríkissjóði séu í kringum 300 millj. kr. Lítið sem ekki neitt, ef bara nokkuð af því, rennur til umferðarmála í raun og veru eða umferðaröryggismála. Við sjáum í hvaða óefni þarna er komið þar sem ekki er markaður tekjustofn til umferðaröryggismála af þessum sektum. Það hefur komið fram, svo við tökum eitt dæmi þó það sé ekki beint skylt þessu, að þó Reykjavíkurborg taki sig til, kaupi umferðargæslumyndavél og setji upp við gatnamót, sem getur svo blikkað á þá keyra yfir á rauðu ljósi eða annars staðar t.d. í jarðgöngum þegar menn keyra of hratt --- sem Reykjavíkurborg keypti að vísu ekki --- þá renna þær umferðarlagasektir beint til ríkissjóðs en fara ekki í það að kaupa fleiri myndavélar eða þess háttar. Þetta er enn eitt dæmið um skattlagningu af umferð sem fer ekki til þess að skila okkur betri umferðarmenningu og svo er það sá skattpeningur sem tekinn er af umferðinni en rennur ekki í nægilega miklum mæli til vegamála.