Vegáætlun fyrir árin 2000--2004

Þriðjudaginn 09. apríl 2002, kl. 17:29:50 (7328)

2002-04-09 17:29:50# 127. lþ. 115.15 fundur 680. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000--2004# þál. 28/127, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[17:29]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Þetta var ágætis hugleiðing hjá hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni, formanni samgn.

Það sem ég vildi vekja athygli á er að hugsanlega séu svo miklir hagsmunir í húfi í vegaframkvæmdum, fyrir öryggismál á þjóðvegum, að ástæðulaust og rangt sé að skera niður fjármagn til vegamála, eins og hér er gerð tillaga um. Er það ekki rangt? Er það ekki líka rangt með tilliti til þjóðfélagsástæðna, þ.e. með tilliti til ástandsins á vinnumarkaðnum og þeirra verkefna sem fyrir liggja? Eru ekki margir samverkandi þættir sem segja að við ættum ekki að skera niður?

Ábending mín númer tvö var síðan að ákveðnar framkvæmdir ætti ekki að skera niður. Það var spurning mín til hæstv. ráðherra: Eru ákveðnir þættir varðir fyrir niðurskurði?