Vegáætlun fyrir árin 2000--2004

Þriðjudaginn 09. apríl 2002, kl. 17:44:31 (7331)

2002-04-09 17:44:31# 127. lþ. 115.15 fundur 680. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000--2004# þál. 28/127, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[17:44]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir þær upplýsingar sem hann kom með í seinni ræðu sinni. Það sem ég vildi halda til haga er að jarðgöng, t.d. milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar eru búin að vera lengi á dagskrá. Það hefði því verið í lófa lagið, ef vilji hefði verið til, að undirbúa þau miklu fyrr. Það er í rauninni engin afsökun fyrir því og ekki er hægt að fela sig þar á bak við að framkvæma þurfi mat á umhverfisáhrifum, hægt hefði verið að gera það miklu fyrr.

Ég skil þó orð hæstv. ráðherra ekki þannig að hann vilji sleppa því ferli sem lýtur að mati á umhverfisáhrifum á slíkum stórframkvæmdum, ég vona að það sé ekki skoðun hans. Ég tel það alveg í hæsta máta eðlilegt að mat á umhverfisáhrifum stórframkvæmda sé bara eðlilegur liður og þurfi ekki að vera að skella sökinni á það ferli eitt sér í svona málum og vona að hæstv. ráðherra sé ekki á móti því að það sé gert, að þetta sé vandlega undirbyggt.

En eins og ég segi, jarðgöngin milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar eru búin að vera lengi á dagskrá og var þess vegna í lófa lagið að undirbúa þau miklu fyrr. Fyrir því er í rauninni engin afsökun annað en viljaleysi. Hins vegar er alveg rétt með jarðgöngin frá Siglufirði og inn í Ólafsfjörð, þau jarðgöng sem þar hafa verið fyrirhuguð hafa verið seinna á ferðinni varðandi undirbúning, en í sjálfu sér hefði líka verið hægt að flýta þeirri vinnu ef eindreginn vilji hefði verið til. Ég vil bara halda því hér til haga, herra forseti, að þarna hefði verið hægt að taka miklu myndarlegar á og fyrr.