Flugmálaáætlun árið 2002

Þriðjudaginn 09. apríl 2002, kl. 18:44:03 (7347)

2002-04-09 18:44:03# 127. lþ. 115.16 fundur 681. mál: #A flugmálaáætlun árið 2002# þál. 27/127, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[18:44]

Jón Bjarnason (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil árétta það sem hæstv. samgrh. kom inn á í lokin, að það hlýtur að vera hagur allra, líka þeirra sem hafa þá skoðun að Reykjavíkurflugvöllur eigi að fara eftir 2016, að umgjörð öll sé þar til fyrirmyndar. Við skulum því ekki eingöngu ræða um þá sem vilja hafa völlinn áfram á sama stað heldur líka það. Ég reyndar tel að völlurinn eigi að vera áfram en virði skoðanir hinna líka.

Ég tek undir það að byggingar, þjónusta á vellinum og umgengni er fjarri því að vera til sóma þannig að þarna þarf að taka verulega á.

Ég vildi spyrja hæstv. ráðherra út í það sem hann kom inn á í andsvari sínu um Ísafjarðarflugvöll og Þingeyrarflugvöll: Er þá markmiðið að Þingeyrarflugvöllur geti orðið með næturflugsaðstöðu? Mér finnst það skipta máli í þessari umræðu. Það er stutt á milli Ísafjarðar- og Þingeyrarflugvalla. Er verið að vinna að því að Þingeyrarflugvöllur gæti þjónað sem næturflugvöllur?