Fiskveiðar utan lögsögu Íslands

Þriðjudaginn 09. apríl 2002, kl. 20:00:22 (7352)

2002-04-09 20:00:22# 127. lþ. 115.14 fundur 670. mál: #A fiskveiðar utan lögsögu Íslands# (norsk-íslenski síldarstofninn) frv. 50/2002, SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[20:00]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Heiti frv. sem við ræðum núna er ekki sérstaklega gegnsætt, þ.e. hér er um að ræða frv. til laga um breytingu á lögum um fiskveiðar utan lögsögu Íslands. Í raun snýst þetta frv. hins vegar um norsk-íslensku síldina, um deilistofn sem nú á að falla undir þessi lög. Upphaflega féll norsk-íslenska síldin undir lögin um úthafsveiðar. Eins og menn þekkja voru síðan sett sérstök lög um norsk-íslensku síldina. Í fyrra voru þau lög framlengd þrátt fyrir áskilnað í lögum um að ráðherra ætti að flytja hér frv. um framtíðarfyrirkomulag þessara mála á liðnu hausti. Nú er sem sagt komin niðurstaða í þetta mál, að því er virðist, af hálfu hæstv. sjútvrh. Norsk-íslenski síldarstofninn á að falla undir úthafsveiðilöggjöfina og sjálfsagt og eðlilegt að svo sé.

Það sem hér um ræðir eru sérákvæði sem í sjálfu sér breyta ekki miklu en hið fyrra gerir þó ráð fyrir að í stað þess að miðað sé við þau veiðitímabil sem sagt er til um í lögunum verði öll þau ár sem síldin hefur veiðst tekin. Það kemur í stað þess að nýta 2. mgr. 5. gr. laganna um fiskveiðar utan lögsögu þar sem segir:

,,Sé tekin ákvörðun um að takmarka heildarafla úr slíkum stofni sem samfelld veiðireynsla er á skal aflahlutdeild einstakra skipa ákveðin á grundvelli veiðireynslu þeirra miðað við þrjú bestu veiðitímabil þeirra á undangengnum sex veiðitímabilum.``

Það á sem sagt ekki að fara nákvæmlega eftir þessari grein miðað við fyrri málsgrein þessarar greinar frv. Frv. er raunar ekki nema ein grein fyrir utan gildistökugreinina. En samkvæmt þessu skal miða við árin frá 1994--2001. Síðan er svona árétting á því, að hafi skip komið í stað annars skips sem áunnið hefur sér veiðireynslu eigi það skip sem í staðinn kemur að njóta þeirrar aflareynslu sem hið fyrra hafði áunnið sér.

Menn geta velt því aðeins fyrir sér, af því hér er verið að úthluta aflahlutdeild en ekki aflamarki eða tonnafjölda byggðan á reynslu, hverju er í raun og veru verið að úthluta. Það er verið að úthluta aflahlutdeild sem byggir á veiði frá 21 þús. lestum og upp í 233 þús. lestir þegar best gerði. Ef vonir manna rætast og norsk-íslenski síldarstofninn verður eins stór og bjartsýnir aðilar hafa vonast til erum verið ekki að tala um neitt smáræði í lestafjölda. Ætli við gætum þá ekki verið að tala um kannski 4--5 þús. lestir af síld, séum við að horfa til þess hvernig þetta gat verið hér á árum áður.

Mér finnst full ástæða til þess, herra forseti, að við horfum á málið í þessu ljósi. Nú hafa hæstv. sjútvrh. og stjórnarflokkarnir ákveðið að úthluta aflahlutdeild á skip. Það á sem sé ekki að horfa til tonnafjölda eða aflamarks sem skipin hafa verið að veiða heldur á að fara í hlutdeild. Það getur orðið býsna mikill afli þegar fram líða stundir ef vonir manna um stækkun á stofninum rætast. Þá er nú verið að úthluta mönnum býsna miklum gæðum og nokkuð ljóst að menn eru missáttir við það fyrirkomulag sem hér er lagt til.

Þegar hæstv. ráðherra framlengdi lögin um norsk-íslenska síldarstofninn fyrir um ári kom fram að það væri gert vegna þess að verið væri að endurskoða lögin um stjórn fiskveiða, eða eins og segir hér í athugasemdum við það lagafrv., með leyfi forseta: ,,Ráðgert er að sú efnislega endurskoðun sem mælt er fyrir um í 3. gr. laganna verði framkvæmd samhliða heildstæðri endurskoðun sem nú er unnið að á lögum um stjórn fiskveiða á vegum nefndar sem sjávarútvegsráðherra skipaði á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða ...``

Það var sem sagt vilji ráðherrans að þetta yrði unnið samhliða. Nú er það svo að frv. sem hæstv. ráðherra lagði fram hefur að fæstra mati verið álitið nokkur heildarendurskoðun heldur einungis rétt eitt krafsið í löggjöfina um stjórn fiskveiða. Auk þess áttu menn kannski erfitt með að sjá fyrir sér af hverju þurfti að horfa til þess hvernig löggjöfin um stjórn fiskveiða liti út á endanum --- það sér reyndar enginn fyrir enn þá --- áður en menn færu í það að ræða síldina. En þetta var niðurstaðan og nú virðist ráðherrann orðinn það öruggur og sáttur við verk sitt varðandi endurskoðun á lögunum um stjórn fiskveiða að óhætt sé að ganga varanlega frá síldinni.

Ég vil af þessu tilefni, herra forseti, rifja upp að Samfylkingin hefur verið á móti þeirri löggjöf sem sett hefur verið um síldveiðarnar. Við höfum nokkrum sinnum borið fram brtt. og höfum líka lagt fram sjálfstæð frv. um hvernig fara skuli með norsk-íslenska síldarstofninn. Það er ljóst að þegar farið var að veiða síld hér árið 1994 var veiðireynsla ekki fyrir hendi. Síldveiðar höfðu þá ekki verið stundaðar svo neinu næmi í um 30 ár. En það er ljóst að með þeim samningum sem gerðir hafa verið hafa Íslendingar tryggt sér veiðiréttindi úr þessum stofni og fyrirkomulagið hefur verið skoðað til bráðabirgða. En það er ástæða til að rifja upp, herra forseti, að fyrirkomulagið hefur verið álitið til bráðabirgða. Þó svo að fyrst væri fjallað um norsk-íslensku síldina undir formerkjum úthafsveiðilaganna, sem nú er verið að færa hana undir aftur, var alveg ljóst að meiri hluti sjútvn. var á því við afgreiðslu frv. um úthafsveiðar að veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum ættu ekki að mynda grunn að fastri aflahlutdeild. Í nál. meiri hluta nefndarinnar um 57. mál á 121. þingi segir, með leyfi forseta:

,,Veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum verði á grundvelli leyfa til veiðanna á sambærilegum forsendum og verið hafa. Veiðireynsla úr þessum stofni myndi ekki grunn að fastri aflahlutdeild.``

Maður hafði kannski haldið að meiri hluti sjútvn., sem var skipaður sjálfstæðismönnum og framsóknarmönnum --- hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson sem situr í salnum var nú einmitt einn af þeim sem stóðu að þessu meirihlutaáliti --- léti ekki þróunina verða þá sem hún hefur síðan orðið, þ.e. að smám saman hefur framsal og veiðireynsla verið að leggja þessar veiðar undir sig. Nú er sem sagt verið að fullkomna þetta dæmi með því að setja það inn í nákvæmlega sama fasa og þær veiðar sem eru kvótasettar samkvæmt lögunum um stjórn fiskveiða.

Það er full ástæða til, herra forseti, að menn ræði svolítið hvort siglingin á þessu máli hefur verið í samræmi við það sem menn vildu sjá og í framhaldi af því hvort það er meiri hluti fyrir málinu í hæstv. sjútvn. Þar sitja nokkrir þeirra sem stóðu að þessari niðurstöðu sem ég var að lesa upp áðan, að veiðarnar yrðu samkvæmt leyfum og ættu ekki að mynda stofn til varanlegrar aflahlutdeildar. Við eigum, herra forseti, því eftir að sjá hvort meiri hluti er í nefndinni fyrir þessu máli.

Ég kom hér upp fyrst og fremst til þess að lýsa afstöðu Samfylkingarinnar í þessu máli. Hún er óbreytt frá því sem hún hefur verið. Við munum skoða í nefnd hvort ástæða er til að flytja breytingartillögu enn einu sinni til að reyna að hafa áhrif á hvernig þessi mál ganga fyrir sig. Það er ljóst eins og ég sagði, herra forseti, að hér er þannig gengið frá hlutum að ég álít að fullkomin óvissa sé um hvort meiri hluti er fyrir málinu í sjútvn.