Fiskveiðar utan lögsögu Íslands

Þriðjudaginn 09. apríl 2002, kl. 20:30:11 (7357)

2002-04-09 20:30:11# 127. lþ. 115.14 fundur 670. mál: #A fiskveiðar utan lögsögu Íslands# (norsk-íslenski síldarstofninn) frv. 50/2002, GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[20:30]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er alveg sammála ráðherranum um að hann og margir forverar hans hafi gert mörg mistök við úthlutun á heimildum. Þegar verið er að úthluta nýjum tegundum og þegar skipaflotar fá ný og varanleg verkefni eins og í þessu tilviki tel ég að skoða eigi hver innskilareglan eigi að vera úr því að við erum með það í lögum.

Ég hygg að ég fari rétt með að bæði hafi verið skilað inn á Reykjaneshrygg á sínum tíma og á Flæmingjagrunni. Hins vegar kom útfærslan á innskilareglunni eins og á Reykjaneshrygg náttúrlega mjög misjafnlega út vegna þess að mönnum var gefið sjálfdæmi í því að skila í ákveðnum tegundum. Ef ég man rétt, þegar þessi úthlutun átti sér stað á Reykjaneshryggnum, skiluðu flestir inn í ufsa sem þá veiddist ekki. Þar fyrir utan átti togaraflotinn stærstu heimildirnar í ufsanum og fékk þeim þar af leiðandi endurúthlutað í staðinn fyrir að skilað væri jafnt inn í þorskígildum.

Þetta vildi ég láta koma fram við þessa umræðu. Ég tel nauðsynlegt að farið verði gaumgæfilega yfir þetta mál í sjútvn., forsöguna, lögin eins og þau eru í dag og hvaða áhrif þetta hefur til framtíðar.

Ég hygg að þótt kvótakerfið sé um margt umdeilanlegt sé einna mestur friður um kvótastýringuna á veiðum uppsjávarfisksins, þar megi frekast nýtast við að þar hafi tekist sæmilega til.