2002-04-09 20:43:28# 127. lþ. 115.20 fundur 684. mál: #A aðild að Kyoto-bókun við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# þál. 13/127, utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[20:43]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Hér er jafnframt um mál að ræða sem hefur verið rætt mjög mikið á Alþingi og e.t.v. meira en flest önnur mál sem hér hafa verið til umfjöllunar. Með þessari þáltill. er leitað heimildar Alþingis til að Ísland gerist aðili að Kyoto-bókun við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar sem gerð var 10. desember 1997.

Rammasamningur Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar var gerður í New York 9. maí 1992, Ísland gerðist aðili að þeim samningi 16. júní 1993 og hann öðlaðist gildi 21. mars 1994. Þessi samningur var stefnumarkandi alþjóðasamningur um viðbrögð við loftslagsbreytingum en hann hafði hins vegar ekki að geyma lagalega bindandi ákvæði um markmið eða einstakar aðgerðir.

Síðan er hv. þingmönnum kunnugt um þá þróun sem varð í þessum málum í framhaldi af aðildarríkjaþingi rammasamningsins sem var haldið í Berlín 1995 og síðan hinn sögulega fund sem haldinn var í desember 1997 í Kyoto.

Markmið þessarar svokölluðu Kyoto-bókunar er að minnka útstreymi gróðurhúsalofttegunda sem hefur aukist undanfarin 150 ár, fyrst og fremst í iðnríkjunum. Bókunin kveður á um að aðildarríki skuli draga úr útstreymi tiltekinna lofttegunda og viðmiðunin er árið 1990. Fyrsta skuldbindingartímabil þessarar bókunar er 2008--2012.

[20:45]

Meginákvæði bókunarinnar er að finna í 3. gr. hennar. Þar er framangreindum ríkjum gert að takmarka sameiginlega og hverju um sig útstreymi þeirra gróðurhúsalofttegunda sem skráðar eru í viðauka A við bókunina, þannig að samanlagt árlegt útstreymi þeirra á fyrsta skuldbindingartímabilinu verði að meðaltali 5,2% minna en viðmiðunarárið 1990.

Við samþykkt Kyoto-bókunarinnar var ljóst að samþykkja yrði ítarlegri ákvarðanir um framkvæmd einstakra atriða bókunarinnar áður en iðnríkin gætu fullgilt hana. Á fjórða aðildarríkjaþinginu í Buenos Aires árið 1998 var samþykkt sérstök framkvæmdaáætlun um undirbúning þessara ákvarðana. Var hún upphafið að því samningaferli sem leitt var til lykta á sjöunda aðildarríkjaþinginu í Marrakesh í nóvember 2001.

Kyoto-bókunin lá frammi til undirritunar í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York frá 16. mars 1998 til 15. mars 1999. Bókunin var undirrituð af 84 ríkjum. Hinn 4. apríl höfðu alls 53 ríki fullgilt bókunina, þar af aðeins tvö ríki, Rúmenía og Tékkland, af þeim sem skráð eru í I. viðauka og veitt hefur verið útstreymisheimild. Bókunin öðlast gildi þremur mánuðum eftir að minnst 55 aðildarríki að rammasamningnum hafa afhent fullgildingarskjöl sín. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum um þau aðildarríki sem tilgreind eru í I. viðauka stefna ríki Evrópusambandsins og Noregur að því að fullgilda bókunina fyrir leiðtogafund Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun sem haldinn verður í Jóhannesarborg 26. ágúst til 4. september 2002.

Eins og margoft hefur komið hér fram og er kunnugt hefur hún ekki verið undirrituð fyrir hönd Íslands. Því var lýst yfir af hálfu ríkisstjórnarinnar að ekki bæri að undirrita hana þar sem ekki væri sýnt að Ísland gæti fullnægt skuldbindingum hennar. Jafnframt var því lýst yfir í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar 28. maí 1999 að Ísland mundi gerast aðili að Kyoto-bókuninni þegar fyrir lægi ásættanleg niður staða í sérmálum þess.

Hér hefur margoft á hv. Alþingi verið rætt um þá niðurstöðu sem fékkst í þessu máli. Með þeim ákvörðunum sem hafa verið teknar er með fullnægjandi hætti tekið á sérstöðu Íslands, eins og margoft hefur verið rætt á Alþingi, og leystur sá vandi sem skilgreindur var á aðildarríkjaþinginu í Kyoto.

Umhverfisráðuneytið hefur staðfest að ákvæði Kyoto-bókunarinnar stangist ekki á við gildandi lög hér á landi og kallar aðild Íslands að bókuninni því ekki á breytingar á lögum.

Skuldbindingar samkvæmt bókuninni eru þess eðlis að þær kalla á víðtæka stefnumörkun og útfærslu. Ríkisstjórnin hefur samþykkt nýja stefnumörkun um ráðstafanir til að standa við skuldbindingar loftslagssamningsins og Kyoto-bókunarinnar.

Stefnumörkunin felur í sér tillögur um ráðstafanir á næstu árum sem leiða muni til lækkunar á útstreymi gróðurhúsalofttegunda eða aukinnar bindingar kolefnis.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. utanrmn.